Grindavíkurbátar með fjórðung heildarlínuaflans

Grindavík er óumdeilanlega miðstöð línuveiða á Íslandi. Þar eru höfuðstöðvar tveggja langstærstu línuútgerða landsins og þar er einnig langstærsta krókabátaútgerðin. Bátar skráðir í Grindavík veiddu um 30.000 tonn á línu á árinu 2005 sem er 26% af heildarlínuaflanum á landinu það árið, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.

Eins og að líkum lætur veiða bátar Vísis og Þorbjarnar Fiskaness megnið af línuafla Grindvíkinga, en eigendur krókaaflamarksbáta í Grindavík hafa mjög verið að sækja í sig veðrið. Þeir gera nú út sex beitningarvélabáta í smábátakerfinu og eru með tvo til viðbótar í smíðum af þeirri gerð. Þegar þessir bátar verða komnir í gagnið verður einn af hverjum þremur beitningarvélabátum á landinu í litla kerfinu skráður í Grindavík.

Af vef Grindavíkur