Grindavík þriðja kvótamesta höfnin

Nýtt fiskveiðiár gengur í garð í dag.  Líkt og í fyrra fer stærstur hluti aflamarks í þorskígildum talið til skipa með heimahöfn í Reykjavík, næst mest til Vestmannaeyja, og þar næst Grindavíkur. Alls fara um 34% aflamarks til skipa með heimahöfn á þessum stöðum, samkvæmt því sem fram kemur í frétt á vef Fiskistofu.

Þorbjörn hf í Grindavík ræður yfir 15.013.651 þorskígildistonnum sem er 5,55% hlutdeild heildaraflamarks. Þorbjörn er þar með í fjórða sæti yfir þau fyrirtæki sem ráða yfir mesta kvótanum. Vísir í Grindavík er í sjötta sæti með 11.570.805 þorskígildi sem gerir 4,28% hlutdeild.

Þrjú stærstu fyrirtækin eru HB Grandi, Brim og Samherji. Alls er úthlutað 288.042 tonnum, samanborið við 310.451 tonn, sem úthlutað var við upphaf síðasta fiskveiðiárs.