Gott hjá krókabátunum

Heildarafli á Suðurnesjum var rúm 25,100 tonn í mars samanborið við 27,800 tonn í sama mánuði síðasta árs. Þar af er loðnuaflinn tæp 10,317 tonn, samkvæmt bráðabrigðatölum frá Fiskistofu. Alls bárust 5,968 tonn af þorski á land í mars samanborið við 6,442 tonn árið áður.

 

Mjög góð aflabrögð hafa verið hjá Suðurnesjabátum síðustu vikur. Tala sjómenn um að þeir hafi aldrei séð eins mikið af fiski á miðunum og skilja ekki vísindi Hafró um hnignandi þorskstofn.  Krókabátar úr Grindavík hafa verið að gera það gott og raða sér efst á aflalista vefsíðunnar www.aflafrettir.com. Ef marsmánuður er skoðaður trónir Þórkatla GK efst á listanum með 157 tonn úr 20 róðrum, Óli á Stað kemur næstur með 146 tonn og Hópnesið er í þriðja sæti listans með 132 tonn.

 

Af stærri vertíðarbátunum er Erling KE efstur á aflalistanum með rúm 900 tonn úr 41 sjóferð.