Góð aflabrögð þrátt fyrir leiðindatíð

Þrátt fyrir leiðinlegt tíðarfar voru aflabrögð Grindavíkurbáta og -skipa í janúarmánuði talsvert betri en á sama tíma í fyrra, en svo segir á heimasíðu Grindavíkurbæjar í dag.


Afli stóru línuskipanna hefur verið á bilinu 50-70 tonn í hverri veiðiferð oftast eftir 5 lagnir. Af þeim hefur Kristín borið mestan afla á land tæplega 400 tonn í 5 veiðiferðum.


Smærri línubátar fengu ágætan afla þegar gaf á sjó og komust þeir uppí 11-12 tonn í róðri. mestan afla í mánuðinum fékk Gísli Súrsson 65 tonn í 9 róðrum.


Tregur afli var hjá netabátum í mánuðinum, en þó virtist sem heldur væri að glæðast á dýpri slóð síðustu daga mánaðarins, en þá gekk í brælu og nú eru allir netabátar með netin um borð.


Allir togarar Þorbjörns eru komnir úr fyrsta túr á nýju ári og er aflaverðmæti þeirra eftirfarandi Hrafn Sveinbjarnarson um 58 milljónir eftir 21 dag, Gnúpur 71 milljón eftir 22 daga og Hrafn 62 milljónir eftir 26 daga.

 

Af www.grindavik.is