Góð aflabrögð í Grindavík

Mjög góð aflabrögð hafa verið undanfarna daga hjá línubátum í Grindavík. Eru bátarnir að fá 5 – 10 tonn í róðri en bátarnir eru flestir 6 – 15 tonn að stærð og eru því að koma með nánast fullfermi að landi.

Það skapast skemtileg og lífleg stemmning við höfnina þegar allir bátarnir eru að koma í land á sama tíma og menn keppast við að landa á sem stystum tíma til að geta lagt sig fyrir næsta róður.

Nýjustu bátarnir eru útbúnir með beitningarvél og geta róið daglega þegar tíðarfarið er svona gott en þeir sem róa með handbeitta lína verða oft að stoppa vegna þess að ekki hefst undan að beita bjóðin. Þá hafa beitningavélabátarnir fiskað betur vegna þess að beitan fer ferskari í sjóinn og stefnir allt í að svona bátur sem er 15 tonn að stærð veiði 1000 tonn ári. Er svo bara að vona að blíðviðrið og aflabrögðin haldist sem lengst svo að allir njóti góðs af.