Gjögur h/f semur um smíði á ísfisktogara

Samið hefur verið um að BP Shipping sjái um smíði á 29 metra löngum ísfisktogara fyrir útgerðarfélagið Gjögur hf. Skipið verður smíðað af undirverktökum BP Shipping eftir teikningu og hönnun Nautic ehf. og er gert ráð fyrir því að það verði afhent útgerðinni í janúar 2007.

Að sögn Björgvins Ólafssonar hjá BP Shipping verður farin ný leið við byggingu þessa skips en hún er fólgin í því að stað þess að fyrirtæki hans sjái um milligöngu við að koma smíðasamningi á, þá muni það alfarið sjá um smíðina og afhenda skipið fullbúið með vélum og tækjum.


Skrokkur skipsins verður smíðaður í Póllandi og þar verður einnig lokið við smíðina. Aðalverktaki verður Nordship í Gdynia. Vélar og tæki munum við síðan kaupa í skipið í samráði við útgerðina, segir Björgvin í samtali við Skip.is en hann upplýsir að nýja skipið verði svipað því sem BP Shipping samdi um smíði á fyrir Berg-Huginn í Vestmannaeyjum en það verður afhent í nóvember 2006. Mikil áhersla hafi verið lögð á að haga hönnun skipsins með þeim hætti að það væri hagkvæmt í rekstri án þess að það bitnaði þó á togeiginleikum.

Af vef Grindavíkurbæjar.