Fyrningaleiðin mun gera út um sjávarútvegsfyrirtækin

Þorsteinn Erlingsson, formaður Útvegsmannafélags Suðurnesja og eigandi Saltvers, segir hugmyndina um svokallaða fyrningarleið í sjávarútvegi til þess eins fallna að gera út af við sjávarútvegsfyrirtækin í landinu. Þar verði enginn undanskilinn. Verið sé að refsa þeim sem trúðu á framtíð íslensks sjávarútvegs í stað þeirra sem seldu kvótann sinn í ágóðaskyni.

Þorsteinn segir kvótakerfið hafa verið umdeilt á meðal ákveðinna stjórnmálaafla og að þau hafi kynt undir óánægjunni fyrir hverjar kosningarnar á fætur öðrum, „kannski til að beina athyglinni frá einhverju öðru,“ segir hann. Og enn er deilt.  Nú um fyrningaleiðina svokölluðu sem mætt hefur harðri andstöðu sveitarfélaga og hagsmunaðila í sjávarútvegi.


Kvótakerfið hefur skilað árangri


Þorsteinn segist ekki hafa verið móti kvótakerfinu. Þegar það var sett á hafi verið allt of margir bátar og lítill fiskur. „Hefðum við haldið þessu áfram óbreyttu hefðum við einfaldlega klárað stofnana, líkt og gerst hefur í sumum löndum í kringum okkur. Menn urðu að finna út hvaða leiðir væru bestar því það þurfti að fækka bátum og fiskvinnslum. Auðvitað kostaði þetta átök, að sjálfsögðu. Það væri engin fiskur hér í dag ef ekki hefði verið settur á kvóti. Með skuttogaravæðingunni upp úr 1970 voru komin hér ný og miklu öflugri skip sem hreinsuðu upp miðin. Eða er fólk búið að gleyma bæjarútgerðunum sem var haldið gangandi með opinberu fé og ástandinu sem skapaðist í sjávarbyggðum í kjölfarið,“ spyr Þorsteinn ákveðinn.

„Þegar menn tala um að kvótakerfið hafi ekki skilað árangri má benda á að fyrir ekki nema sex árum kallaði Hafró okkur útvegsmenn hér á svæðinu á sinn fund. Þá var allt komið í óefni með humarstofninn. Ég veit ekki betur en að hann sé í mjög góðu lagi í dag. Eins er með ýsustofninn, ufsann líka og íslensku síldina þó við getum lítið gert við því að í hana hafi komist sýking. Í kringum 1970 vorum við hér um bil búnir að klára hana. Nú er norsk  íslenska síldin óðum að ná sér á strik. Vissulega hefur þetta kerfi skilað árangri,“ segir Þorsteinn og bendir á að niðurstöður þorskrannsókna Hafró sl. haust hafi verið mjög jákvæðar. „Vonandi fáum við jafn jákvæðar fréttir af þorskinum á þessu ári.“

Óhætt að auka þorskkvótann

Hvað þorskinn varðar eru áhöld uppi um ástand hans. Sjómenn tala um fullan sjó af vænum þorski og vilja meiri kvóta á meðan vísindi Hafró segja eitthvað allt annað. Þorsteinn var inntur álits á þessu.
„Það er svo mikið af þorski að í rauninni má kalla það jákvæðasta vandamál sem við glímum við á Íslandi í dag. Þú getur hvergi farið um án þess að fá þorsk. Við höfum aldrei séð eins mikið af stórum og fallegum þorski og núna í vetur við Garðskagann og hann er mjög vel haldinn,“ segir Þorsteinn, sem hefur alla starfsævina verið við sjómennsku og útgerð. Hann eins og margur annar útvegsmaðurinn veltir vöngum yfir vísindaaðferðum Hafró. Þorsteinn telur að í þessu ljósi sé óhætt að auka við þorskkvótann og ekki veiti af eins og ástandið sé í efnahagsmálum þjóðarinnar.  „Vonandi auka þeir þorskkvótann í 200 þúsund í haust og leyfa þeim sem vilja áfram búa á Íslandi að njóta vafans.“Sjálfbær nýting


Þorsteinn segir kvótakerfið  t.d. hafa kallað á kröfuna um sjálfbæra nýtingu auðlindarinnar. Hann hefur í mörg ár rekið útgerðar og fiskvinnslufyrirtækið Saltver en áherslur fyrirtækisins hafa verið í vinnslu á saltfiski.

„Núna í vetur höfum við fylgt eftir nýrri stefnu á þann veg að báturinn veiðir eingöngu fyrir vinnsluna, þar sem lögð er áhersla á fyrsta flokks gæði. Menn veiða því ekki meira en þeir þurfa hverju sinni. Báturinn hefur farið út klukkan fimm á morgnana með helmingi færri net en árið áður. Er kominn laust eftir hádegi og þá er búið að gera að fiskinum fyrir kvöldið. Báturinn hefur verið að koma inn með 2025 tonn af fallegum þorski sem við setjum strax í krapa um borð og kælum niður.  Með þessu náum við að hámarka gæðin og fá þar af leiðandi betra verð. Bæði sjómennirnir og fólkið í vinnslunni er mjög ánægt með þetta fyrirkomulag. Með hefðbundnum vinnsluaðferðum í saltfiski vorum við að fá á bilinu 2025% í annan flokk. Núna sést varla fiskur í þeim flokki enda er meðferð aflans betri með því að veiða minna í hverjum túr. Menn eru almennt farnir að vinna svona í greininni sem miðast að því að ná meiri verðmætum út úr vinnslunni til að mæta aflasamdrætti. Eins er krafan á markaðnum orðin rík í þessa veru. Portúgalarnir vilja bara fyrsta flokks vöru og eru mjög ánægðir með fiskinn okkar sem er feitur og þykkur í hnakkann. Það er nægur markaður fyrir þennan fisk en slagurinn stendur auðvitað alltaf um verðið,“ útskýrir Þorsteinn.

Erlend lán til kvótakaupa


Stundum er talað um útvegsmenn sem einskonar forréttindahóp, kvótakónga eða sægreifa sem hafi einir aðgang að auðlindinni í hafinu. Þorsteinn segir að ekki sé allt sem sýnist í þeim efnum.
„Frá því kvótakerfið var sett á af stjórnvöldum og til að byggja upp stofnana, en ekki í þágu útvegsmanna eins og iðulega er haldið fram, hefur verið klipið af aflaheimildum togara og hefðbundinna vertíðarbáta til að setja í eitthvað annað, s.s. smábátakerfið eða aflamarkið. Þess vegna seldu svo margir kvótann sinn, óttuðust að enn frekar yrði gengið á þær fjárfestingar sem þeir höfðu ráðist í. Það er reyndar búið að reyna svo margt.  Þetta hefur komið verst niður á vertíðarbátunum á suðvestursvæðinu og Breiðafirði.
Eina leiðin fyrir okkar til að bæta þetta upp var að kaupa kvóta. Menn kaupa kvóta en svo er klipið af honum jafnóðum. Menn hafa tekið erlend lán til kvótakaupa því önnur voru ekki í boði. Samhliða hruni á gengi krónunnar með tilheyrandi hækkunum erlendra lána hefur afurðaverð lækkað um 40%, þannig að fyrirtækin eru orðin mjög skuldsett,“ segir Þorsteinn. Hann tekur ekki undir það að gengismunurinn hafi komið sér vel fyrir útflutninginn. Verðlækkunin hafi komið í veg fyrir það.

Fyrningarleiðin óskiljanleg

Hugmyndir um svokallaða fyrningarleið hafa mætt harðri andstöðu, svo harðri að spyrja má hvort yfirvöldum sé stætt á því að fylgja hugmyndinni eftir. Þorsteinn segist vona að snúið verði frá þessum hugmyndum. Þær auki eingöngu á vandann því nú haldi menn að sér höndum.
„Það fjárfestir enginn í sjávarútvegi í dag, menn eru bara rétt að halda þessu gangandi. Þetta hefur eingöngu aukið á atvinnuleysið. Maður hefði haldið að yfirvöld ættu fremur að auka kvótann til að auka mönnum bjartsýni og auka atvinnu,“ segir Þorsteinn.
Hann telur fyrningarleiðina muni hafa slæmar afleiðingar fyrir þá sem byggt hafa upp stóru sjávarútvegsfyrirtækin, bæði með kvóta og vinnslu. Mörg þeirra hafa sérhæft sig í ákveðinni vinnslu með dýrum fjárfestingum í tækjabúnaði sem hefur verið þróaður og framleiddur innanlands  af frumkvöðlafyrirtækjum á borð við Marel, Skagann og fleiri. „Ég hef t.d. fjárfest í búnaði fyrir loðnu og er mjög óánægður með Hafró skyldi ekki gefa út a.m.k. 100.000 tonna kvóta í vetur því loðnan deyr hvort sem er eftir hrygningu,“ segir Þorsteinn.

Þorsteinn spyr hvort yfirvöld ætli að ráðast á þann geira sem skilar mestum gjaldeyri inn í þjóðarbúið. „Ef þessi fyrningarleið verður farinn munum við sjá stærstu og blómlegustu sjávarútvegsfyrirtæki landsins líða undir lok. Fyrirtæki sem hafa skapað hundruði starfa í áratugi.  Þessi fyrningarleið á eftir kippa fótunum undan öllum sem starfa í þessari grein, ekki bara útvegsmönnum, heldur einnig sjómönnum og landverkafólki. Öryggið er ekkert. Öll langtímamarkmið og allir söluamningar eru í uppnámi því þegar kvótinn fer á uppboð þá veit enginn hvar hann lendir,“ segir Þorsteinn.

Hinum tryggu refsað

„Þeir einu sem eru ánægðir með þetta eru þeir sem voru í frjálsri veiði, fengu kvóta, seldu hann og sumir tvisvar sinnum. Þeir eru mjög ánægðir með að komast enn á ný inn í kvótakerfið til að geta selt kvótann enn eina ferðina. Hinum, sem verið hafa sauðtryggir, má blæða. Ég er búinn að vera skipstjóri og útgerðarmaður alla mína ævi og ætlaði að reyna vera í þessu á meðan mér entist aldur til. Dóttir mín og tengdasonur eru tekin við rekstrinun að mestu. Þetta er ungt fólk og því nýliðun fyrir framtíðaráform fyrirtækisins. En nú á að gera út um okkur.  Það er verið að hegna okkur fyrir það að hinir seldu. Þetta er ekki það sem þjóðin þarf,“ segir Þorsteinn.