Fróðlegur fundur með Pétri á Bryggjunni

Pétur H. Pálsson framkvæmdastjóri Vísis hf. flutti afar fróðlegan fyrirlestur á kaffihúsinu Bryggjunni í morgun. Þar kynnti hann starfsemi fyrirtækisins sem er ekki bara með fjórar starfsstöðvar á Íslandi heldur einnig í Þýskalandi og í Kanada. Vísir hefur fjárfest töluvert í sjávarútveginum í Kanada undanfarin ár og þrátt fyrir erfiðleika sjávarútvegs á Nýfundnalandi eru bjartari tímar framundan.

Pétur sagði að verkefnið í Kanada tæki 5 til 10 ár. Afkoman á Íslandi mun því standa undir kostnaði þangað til og fjárfestingin mun ráða miklu um stöðuna að þeim tíma liðnum. ,,Það er því mikið í húfi fyrir okkur að reksturinn á Íslandi gangi áfram eins og verið hefur," sagði Pétur.

Þá fór hann yfir sjávarútveginn á Íslandi en Íslendingar eru enn fastir í togstreitu um veiðarnar eins og hann nefndi. Pétur sagði að kvótinn væri enn notaður til atkvæðaveiða. Mjög skarpar línur eru að myndast á milli sjávarbyggða og höfuðborgar og það sé ætlun stjórnvalda að taka yfir ákvörðunarréttinn í athöfnum okkar, eins og hann komst að orði.

,,Það stendur til að kippa fótunum undan þeim fyrirtækjum sem enn eru í rekstri með upptöku veiðiheimildanna og skilja skuldirnar eftir," sagði Pétur sem benti á að fiskveiðistjórnun snýst um afkomu fyrirtækja og byggða og ræður úrslitum um afkomu.

Í lokin urðu svo fjörlegar umræður. Fundurinn var upplýsandi og gott innlegg í umræðuna um íslenskan sjávarútveg.

Frétt og mynd af www.grindavik.is