Framleiðsluverðmæti Þorbjörns Fiskaness 2005 tæpir 3,8 milljarðar

Á síðasta ári seldi Þorbjörn Fiskanes hf. fiskafurðir fyrir tæpa 3,8 milljarða króna. Um borð í frystiskipum félagsins voru framleiddar afurðir fyrir um 1.8 milljarða og í  fiskvinnslum félagsins í landi voru framleiddar afurðir fyrir rétt tæpa 2 milljarða króna og er það 10% aukning frá árinu 2004.  Í landvinnslum félagsins var unnið úr 8.000  tonnum af ferskum fiski.

Af einstökum afurðaflokkum voru verðmæti frystra afurða 1.9 milljarðar króna, saltfiskafurða liðlega 1400 milljónir króna, verðmæti ferskra afurða tæplega 400 milljónir króna og ýmissa annarra afurða um 100 milljónir króna.

Þorskafurðir voru verðmætastar ef litið er á einstakar tegundir, bæði frystar, ferskar og saltaðar, eða rúmir 2 milljarðar króna.

Mikilvægustu markaðslönd fyrirtækisins eru Bretland, Bandaríkin, Spánn og  Japan.

Á erlendum mörkuðum hækkaði verð í einstaka afurðaflokkum nokkuð á árinu í erlendri mynt talið. Hins vegar styrktist íslenska krónan verulega á árinu og þar með lækkuðu gjaldmiðlar þeir sem fyrirtækið selur sínar afurðir í um að meðaltali 8% í krónum talið á árinu.

Af heimasíðu Þorbjörns Fiskaness