Fiskverkandi í Grindavík ætlar að kæra úldna ýsu til lögreglu

Línuýsa sem fiskverkandi í Grindavík keypti af markaði á Skagaströnd reyndist úldin og óhæf til manneldis. Fiskistofan skoðaði aflann og segir fiskverkandinn að í skýrslu hennar komi fram að aflinn hafi líklega ekkert verið kældur frá því hann var veiddur á miðvikudagsmorguninn þar til hann kom til Grindavíkur í gærmorgun. Ríkisútvarpið greindi frá þessu í dag.

Pétur Gíslason, framkvæmdastjóri Stjörnufisks í Grindavík, segist í samtali við RÚV afar ósáttur með viðskiptin við Fiskmarkaðinn Örva á Skagaströnd. Þetta sé ekki fyrsta skiptið sem hann kaupi þaðan skemmdan fisk. Pétur segir að ýsan hafi verið seld á fimmtudag sem glæný línuýsa og hafi verið landað fyrir hádegi.

Ýsuna keypti Pétur á 105 krónur kílóið. Forráðamenn fiskmarkaðarins buðu Pétri 10 króna lækkun. Þegar hann þáði það ekki var Pétri ráðlagt að fara með fiskinn á markað í Grindavík og selja hann á mánudegi. Pétur hafði samband við Fiskistofu.

Pétur ætlar með málið til lögreglu og setja lögfræðing í að innheimta féð. Þá hyggst hann hafa samband við viðeigandi ráðuneyti. Séu mennirnir ekki hæfir til að reka markaðinn eigi að taka rekstrarleyfið af þeim, segir Pétur.

 

Myndin tengist ekki fréttinni.