Faxaflóinn er fullur af fiski

Óhætt er að segja að þeir á Muggi KE hafi verið í mokveiði undanfarið. Í gær kom báturinn að landi með 16,6 tonn á 36 bala eða um 460 kíló á hvern. Aflinn daginn áður var einnig glimrandi góður en þá fengust 11 tonn á 32 bala.
Jóhann Gunnar Jónsson á Muggi segir Faxaflóann fullan af fiski, ekki bara þorski. Kvótaleysið geri það hins vegar að verkum að ekki megi veiða hann og því blasi við að menn bindi bát við bryggju.


Þessi afli Muggs er með eindæmum góður með hliðsjón af því að nokkuð gott þykir að fá 100 kíló á bala. „Maður hefur hingað til verið nokkuð ánægður með að fá 5-7 tonn í róðri þannig að þetta er mjög gott,“ sagði Jóhann í samtali við VF.  Hann segir aflabrögð kollega sinna almennt hafa verið verið með miklum ágætum, flestir hafi komið að landi í gær með á bilinu 6-8 tonn.  Hann segir Faxaflóann fullan af fiski.

Er þetta þá hefðbundið skot sem kemur á eftir loðnunni?

„Já, þetta var svona í fyrra líka. Þá vorum við að veiða á sömu slóðum og fengum 130 tonn í 13 róðrum eða 10 tonn að jafnaði í róðri. Það var í apríl í fyrra en það skiptir svo sem ekki máli hvaða mánuðir eru, strax í janúar vorum við farnir að fá svona róðra. Ef það gaf á sjó var alltaf hægt að finna fisk. Svo hefur verið mikið meira af loðnu en menn vildu halda, hún er ennþá að koma í gusum. Um daginn kom stór loðnutorfa löngu eftir að menn voru hættir að veiða. Þorskurinn er því í veislu núna þegar loðnan er að drepast á botninum,“ segir Jóhann. Hann segir þorskinn nokkuð vænan og meðalþyngdina á bilinu 5 - 6kg.

Jóhann segir verst að vera búinn með kvótann. Þá taki bara við sumarfrí nema hægt verði að leigja þorskkvóta en framboðið í þeim efnum sé reyndar harla lítið. Auk þess sé leigukvótinn á háu verði.

Jóhann gefur ekki mikið fyrir vísindi Hafró og segir kvótann hæglega geta verið miklu meiri miðað við það sem sjómenn upplifi úti á miðunum. „Þá er ég ekki bara að tala um þorskinn. Tökum sem dæmi loðnuna núna. Það hefði verið hægt að veiða miklu meira af henni. Núna í mars vorum við eitt sinn að koma inn til Sandgerðis og tókum lóðningu á torfu sem var míla á lengd og 40 faðma djúp. Á sama tíma var einn að koma af Rockall svæðinu búinn að keyra 600 mílur eftir kolmunna á meðan loðnan var sveimandi 2 mílur út af Sandgerði. Þetta sýnir nú bara hversu vitlaus stjórnunin á þessu er,“ sagði Jóhann.