Einar Magnússon í Keflavík kaupir þriðja bátinn á árinu

Einar Magnússon, útgerðarmaður í Keflavík, hefur keypt dragnótabátinn Árna KE með öllum kvóta, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum. Er þetta þriðji báturinn með bugtarleyfi sem Einar kaupir á þessu ári. Snemma á árinu keypti hann Rúnu RE, sem nú heitir Ósk KE, og í maí var Reykjaborgin RE keypt og hefur hún verið skráð í Keflavík. Það er vefurinn Skip.is sem greinir frá þessu.

Með Árna KE fylgir um 390 þorskígildistonna kvóti. Einar Magnússon sagði í samtali við Fiskifréttir að ástæðan fyrir kaupunum á Árna KE væri sú að hann væri að styrkja kvótastöðu Óskar KE og Reykjaborgar KE.

,,Þegar ég keypti Reykjaborgina í vor var ég með það í huga að gera aðeins út eitt skip. Hins vegar leist mér svo vel á bátinn og áhöfnina þegar á reyndi að ég ákvað að gera bæði skipin út áfram. Bátarnir vinna á vissan hátt vel saman. Þeir eru hvor um sig með svipaðan kvóta og Árni KE en þeir þurfa meiri heimildir. Mér fannst hagstæðara að kaupa kvóta en leigja til mín,“ sagði Einar.

Fram kom hjá Einari að Árni KE yrði settur á sölulista án kvóta en með bugtarleyfi og látið á það reyna hvort hann seldist þannig.