Bernskan gerir stóran samning við Vísi

Pokabeituverksmiðjan Bernskan í Súðavík hefur gert samning við fiskvinnslufyrirtækið Vísi ehf. í Grindavík um kaup á fimm pokabeitningavélum og pokabeitu í allan báta fyrirtækisins. „Við vorum að klára hönnun á pokabeitningavél í línubáta, annars hefur allt verið handbeitt í landi,“ segir Kristján Andri Guðjónsson stjórnarformaður Bernsku ehf. Samningurinn hefur gríðarlega mikla þýðingu fyrir pokabeituverksmiðjuna. Að sögn Kristjáns Andra gæti verðmæti samnings verið vel á annað hundrað milljónir en hann felst í því að Bernska útvegi Vísi yfir 20 milljón pokabeitur á ári. Óðinn Gestsson, framkvæmdastjóri Íslandssögu, sem er einn eigenda fyrirtækisins, segir að samningurinn geti haft í för með sér tvöföldun á framleiðslu verksmiðjunnar. „Þetta er hrein og bein viðbót við framleiðslu Bernskunnar í dag og gangi samningurinn alveg eftir verður það tvöföldun á því magni sem nú er framleitt.“Þróun og hönnun beitningavélarinnar er alfarið á vegum Bernskunnar en fyrsta eintakið var selt til Noregs. Þar hefur vélin verið í notkun undanfarnar vikur hjá norskri útgerð og vakið mikla athygli. „Með notkun beitningavélarinnar er afli bátsins tvöfaldur á við venjulegan balabát á þessu svæði. Háskóli í Noregi hefur gert rannsóknir á beitunni og allar þær prófanir hafa verið jákvæðar og óvírætt pokabeitunni í vil,“ segir Óðinn. Óformlegar viðræður standa nú yfir í Noregi um að koma upp beituverksmiðju á Trömsø-svæðinu. „Við höfum verið að kynna fyrir Norðmönnum hugmyndir um beituverksmiðju og nú stendur yfir leit að samstarfsaðilum til að hrinda því verkefni úr vör.“ ?
Óðinn segir að pokabeitan sé mun hagkvæmari en hefðbundin beita. „Í hverri pokabeitu eru 9-10 grömm af hráefni en í hefðbundinni handskorinni beitu eru um 15-30 grömm. Beitunotkunin minnkar því um helming nái þetta tilætluðum árangri.“Upphaflega var hafist handa við að þróa pokabeituna til að freista þess að þróa beitu sem hægt væri að veiða ýsu á. Óðinn segir að allir bátar Íslandssögu hafi notað pokabeitu að undanförnu og veitt bæði þorsk og ýsu með góðum árangri.Að verksmiðjunni Bernsku standa Byggðastofnun, Íslandssaga, HB-Grandi, Öngull, Frystikerfi, KM Stál og Póllinn.


Frá þessu er greint í máli og myndum á www.bb.is