„Þá er þetta bara búið“

„Ef þetta verður boðið upp þá vitum við ekki hvort við fáum kvóta. Við getum fengið á einu tímabili en ekki öðru. Þá er þetta bara búið. Mér sýnist að innan fjögurra ára munu öll stærstu sjávarútvegsfyrirtækin líða undir lok í þeirri mynd sem þau nú eru,“ segir Eiríkur Tómasson hjá Þorbirni hf í Grindavík vegna fyrirhugaðrar fyrningarleiðar í sjávarútvegi sem stjórnvöld hafa boðað.  Eiríkur segist eiga bágt með að trúa því að fyrningarleiðin verði farin enda sé hún best til þess fallin að setja þessa atvinnugrein í uppnám og rústa henni.

Þorbjörn hf er eitt öflugasta sjávarútvegsfyrirtæki landsins í dag með 400 manns á launaskrá og sjö skip á veiðum. Fyrirtækið hefur lagt áherslu á samfellu í veiðum til vinnslu og með því hefur ekki fallið niður dagur í vinnslunni í 8 ár ef frá eru talin sumarfrí.

Eiríkur segir að með fyrningarleiðinni verði skammtímasjónarmiðin allsráðandi og atvinngreininni kippt langt aftur í tímann.
„Gefum okkur að við værum með kvóta til tveggja mánaða. Öll vinnubrögð myndu miðast við það að ná tekjunum inn sem fyrst. Ég segi að þetta sé afurhvarf til fortíðar, - eingöngu yrði hugsað um veiðar en ekki vinnslu og fólk sæti verkefnalaust heima þegar ekki væri nægt hráefni, eins og þetta var hér áður fyrr,“ segir Eiríkur. Hann bendir á að menn hafi starfað eftir lögum um kvótakerfið frá 1984 í trausti þess að það yrði varanlegt. Þess vegna hafi menn lagt í miklar fjárfestingar, bæði í kvóta og tækjabúnaði.
Eiríkur segist sjá fyrir sér ákveðna málamiðlun sem gæti falist í því að greitt yrði gjald fyrir nýtingarréttinn á auðlindinni.

Sjá nánar í Víkurfréttum á morgun.

---

VFmynd/elg - Unnið við saltfiskpökkun í Þorbirni hf í Grindavík.