Virðing, þekking og reynsla

Þegar óvæntur hlykkur kemur á lífsleiðina eins og þegar alvarleg veikindi verða, standa sjúklingur og aðstandendur ringlaðir og ríghalda í trú og von um að allt fari á besta veg. Í slíku ferli er nærvera heilbrigðisstarfsfólks og samskipti við það af afar stór þáttur í minningunni þegar litið er til baka. Hvernig sem fer.

Sem aðstandandi sjúklings í líknandi meðferð var mikið öryggi fólgið í því að vita af móður minni í góðum höndum heimahlynningar Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og afar dýrmætt hversu lengi mamma gat dvalið heima hjá sér í veikindum sínum, nánast fram á síðasta dag. Það var líka vegna þess að faðir minn gat aðstoðað hana við athafnir daglegs lífs og verið henni nauðsynlegur félagsskapur. Ég fylgdist oft með samskiptum mömmu og pabba við hjúkrunarfræðingana og sjúkraliðana sem komu daglega til þeirra. Færnin, þekkingin, reynslan, hlýjan, húmorinn og mannþekkingin voru algjör.

Eins og fram kemur í viðtali Víkurfrétta við Margréti Blöndal hjúkrunarfræðing, sem stýrir 17 kvenna teyma heimahjúkrunar og heimahlynningar, eru aðstandendur alltaf stór þáttur í því að fólk geti verið veikt heima. Boðið hefur verið upp á líknandi meðferð í heimahúsum frá því Sigurður Árnason krabbameinslæknir hóf störf hjá HSS árið 2003. Sú þjónusta er opin bók á þann hátt að þarfir og aðstæður eru metnar hjá hverjum og einum og snýst þjónustan um samvinnu og handleiðslu.

Heildarfjöldi vitjana heimahjúkrunar og heimahlynningar HSS var tæp 30 þúsund í fyrra, til 434 einstaklinga. Yngstu skjólstæðingar heimahjúkrunar hafa verið allt niður í nokkurra daga ungabörn. Öllum aldurshópum er sinnt en verkefnin eru mjög mismundi, allt frá næringu og/eða lyfjagjöf í æð yfir í aðstoð við böðun. Góð samvinna er við aðrar deildir HSS eins og Margrét bendir á í viðtalinu eru Suðurnesin landfræðilega vel til þess fallin að veitt sé góð heimaþjónusta; heimahjúkrun og félagsleg þjónusta.

Það er einstakt fólk starfar við þetta á Suðurnesjum, flestir úr samfélaginu á staðnum og því með mikla tengingu við það. Slíkt er ómetanlegt og kallar fram trúnað, traust og öryggiskennd sjúklinga og aðstandenda á erfiðum tímum. Vonandi fær þessi þjónusta að eflast og dafna áfram, öllu samfélaginu til góðs.

Olga Björt Þórðardóttir
blaðamaður