Verðmæti fortíðarinnar

Þeir sem nota samskiptavefinn Facebook hafa sjálfsagt tekið eftir því að nú skjóta upp kollinum ýmsir hópar sem hafa þann tilgang að birta gamlar ljósmyndir af lífinu hér á Suðurnesjum, gjarnan fylgja svo skemmtilegar sögur með þessum myndum. Keflavík og Keflvíkingar, Njarðvík og Njarðvíkingar og Garðmenn og Garðurinn eru meðal þessara hópa og fólk sem tengist þessum stöðum er yfir sig hrifið af framtakinu. Hér áður en stafræna ljósmyndatæknin ruddi sér til rúms þá var eitthvað meira spennandi við ljósmyndir. Sá munaður að eyða einfaldlega myndinni ef hún var ekki nógu góð var ekki til staðar og vanda þurfti valið á viðfangsefnum þegar að myndavélin var dregin upp. Einhverjar vinsælustu myndir á veraldarvefnum um þessar mundir eru svo myndir með gamaldags útliti sem breytt hefur verið með ýmsum forritum en ljósmyndatískan fer víst í hringi eins og allt annað.

Í þessum hópum á facebook eru vinsælustu myndirnar jafnan þær sem sýna mynd af götum og húsum. Það er eitthvað sem fæstir metnaðarfullir ljósmyndarar eltast við að mynda nú til dags en í þessum myndum felst mikill fjársjóður. Nú til dags er gaman að skoða þessar gömlu myndir og bera saman útlit bæjanna og hvernig byggð hefur þróast og breyst. Ég mynda töluvert sjálfur og á dögunum heyrði ég því fleygt fram að maður ætti helst ekki að eyða neinum ljósmyndum og halda upp á allar þær myndir sem maður tekur, svo framarlega sem þær séu þokkalega í fókus og óhreyfðar að sjálfsögðu. Mynd sem þér finnst kannski ómerkileg og léleg núna gæti reynst ómetanleg heimild og ómetanlegt listaverk eftir 30 ár eða svo, hver veit.

Þúsundir manna eru í þessum hópum og fjöldinn allur skoðar þessar myndir og dásamar. Það sýnir kannski að það er mikilvægt að halda upp á verðmæti af þessu tagi en það virðist ekki nógu mikið um að það sé gert. Fólk ætti helst að prenta/framkalla myndir reglulega og hafa auka afrit af myndunum sínum sem geymdar eru á stafrænu formi. Ég er sjálfur alltaf á leiðinni með myndir í framköllun, nú verður eitthvað gert í því. Hver hefur ekki heyrt þá sögu að tölvan eða harði diskurinn hafi hrunið og allar myndirnar glatast. Ekki láta það koma fyrir þig. Svo langar mig að hvetja fólk sem lumar á gömlum ljósmyndum að setja sig í samband við okkur hér á Víkurfréttum því við viljum eftir fremsta megni halda utan um þessar ómetanlegu heimildir og deila þeim með Suðurnesjamönnum.

Eyþór Sæmundsson