Vegatollar

Vegatollar fá ekki atkvæði frá fólki og í könnun sem gerð var á Víkurfréttavefnum í síðustu viku voru meira en átta af hverjum tíu sem kaupa ekki þá hugmynd sem samgönguráðherra hefur slegið fram. Hann vill flýta samgönguverkefnum, fá fjármagn í lagfæringar á vegum víða um land. Ökumenn á Íslandi eru hins vegar ekki ginkeyptir fyrir hugmyndinni því þeir treysta ekki stjórnvöldum til að fara með tollpeninginn sem þeir myndu greiða, - í vegabætur.
Það eru margir tugir milljarða sem koma í ríkiskassann með bensíngjaldi en þeir fara ekki nema að hluta til í samgöngubætur. Ríkið segir að það sé ekki hægt að eyrnamerkja peninga þannig, þ.e. að einhver ákveðin gjaldtaka skili sér á þann stað þar sem hún er tekin. Með öðrum orðum: Gjaldtaka á Reykjanesbraut myndi ekki endilega fara í framkvæmdir við brautina. Þetta á almenningur erfitt með að skilja. Sá sem þetta skrifar er mjög fylgjandi því að setja vegatolla því annars verða úrbætur á vegakefinu alltof hægar. Það er mikilvægt að fá meiri hraða í úrbætur á vegum því annars tapa fleiri lífinu í bílslysum. Með betri vegum er hægt að minnka þá hættu. Það yrði hins vegar að vera öruggt að svona bein gjaldtaka skilaði sér í vegakerfið. Svo hefur hugmynd um gjaldtöku á ferðamönnum verið í umræðunni. Ég held að það sé ekki spurning hvort heldur hvenær við förum að rukka þá. Íslenskir ferðamenn eru vanir gjaldtöku víða um heim. Þetta væri ekki sjokk fyrir útlendinga sem hingað koma.

Grindavíkurvegurinn er dæmi um veg sem þolir ekki bið á því að eitthvað verði gert. Umferð um Grindavíkurveg hefur aukist mjög mikið undanfarin ár. Þegar fjöldi bíla á vegi er orðinn svona mikill þá aukast mjög mikið líkurnar á að fari ökumaður yfir á rangan vegarhelming þá lendi hann á öðrum bíl. Það er því brýnt að aðgreina gagnstæðar aksturstefnur til dæmis með víravegriði en þannig yrði hægt að koma í veg fyrir framanáakstur. Forráðamenn Grindavíkurbæjar telja hins vegar veginn ekki nógu breiðan og góðan til þess og segja brýnt að ráðist verði í framkvæmdir og langbest sé að tvöfalda veginn. En raunhæft væri að byrja á 2+1. Umræða um Grindavíkurveg hefur náð hámæli í kjölfar annars banaslyss þar á þessu ári.

Fólk á Suðurnesjum tók sig til og lokaði Reykjanesbrautinni fyrir tæpum tveimur áratugum og notaði þá umræðu og kraft sem til varð - til að þrýsta á að framkvæmdir við tvöföldun færu í gang en málið hafði verið í umræðunni á Alþingi í mörg, mörg ár, án þess að nokkuð gerðist. Hlutir fóru að gerast þegar almenningur tók til óspilltra málanna. Nú hefur sú umræða komist á kreik að réttast væri að loka brautinni aftur og þannig að bílar kæmust ekki heldur til og frá Grindavík. Forsvarsmenn Stopp hópsins sem hefur staðið vaktina í samgöngumálum á Reykjanesbraut eru smeykir við að fara þá leið og vilja nota þá aðferð sem hefur virkað vel hjá þeim, að vinna málið með umræðu og viðræðum við stjórnvöld. Undir það má taka. Þó svo að lokunin hafi virkað á sínum tíma þá er nokkuð ljóst að hún myndi ekki gera það á sama hátt núna. Það eru allir upplýstir um nauðsyn þess að hjóla í málin og samgönguráðherra sagði í fjölmiðlum í vikunni að það þyrfti að gera einhvers konar bráðabirgðaframkvæmdir á Grindavíkurvegi. Slíkar framkvæmdir eru komnar af stað á Reykjanesbraut og tvö hringtorg frá Fitjum í Njarðvík að flugstöðinni eru í hönnun og þeirri vinnu lýkur á næstunni, klára á þessi torg á þessu ári.

Hér hefur ekki verið rætt um kaflann frá Hvassahrauni og inn í Hafnarfjörð. Hann þolir heldur ekki bið. Nú reynir á stjórnvöld og ráðherra. Það er ekki hægt að bíða lengur.