Vaxtaverkirnir

Það eru ýmsir vaxtaverkir sem fylgja ferðaþjónustunni og við höfum fjallað um nokkra á undanförnum vikum. Margir þessara vaxaverkja eru jákvæðir ef svo má segja, þ.e. vöntun á starfsfólki sem þýðir minna atvinnuleysi og áframhaldandi þróun á þeirri leið.

Sjónvarp Víkurfrétta tók góðan rúnt í flugstöðinni í vikunni og hægt er að sjá afraksturinn í þætti vikunnar. Það var alveg sama hvar við komum, rekstraraðilar eru mjög ánægðir eftir stærsta ferðamannasumar sögunnar og heyrst hafa tölur um þrefalt meiri sölu en í fyrra sem þó var gott. Um stöðina fara oft vel yfir tuttugu þúsund manns á hverjum degi. Fullur Laugardalsvöllur tekur tíu þúsund manns. Við erum að tala um tvo „fulla“ landsleiki sem rúlla í gegn flugstöðina á sólarhring. Flugtök og lendingar eru vel á annað hundrað.

Í heimsókn okkar skoðum við stækkun stöðvarinnar, förum í rútu sem flytur flugfarþega frá flugstæðum inn í byggingu og smökkum þorskhnakka á nýjum veitingastað. En vissulega hefur ekki allt verið eins og dans á rósum í flugstöðinni í sumar. Ferðamannaukningin varð enn meiri en spár gerðu ráð fyrir og við það mynduðust vaxtaverkir og biðraðir urðu á tímum illþolandi langar. En það er það sem gerist í þennslu. Forsvarsmenn Isavia segjast vera tilbúnir í aðra eins aukningu á næsta ári, vel gangi að ráða fólk og nú í haust verða á milli 50 og 100 manns fastráðnir eftir að hafa verið með sumarráðningu.

Svo berast fréttir úr Helguvík. Þar eru vaxtaverkir undanfarinna ára að linast. Kísilver Thorsil er komið með starfsleyfi og eigendur þess segja að Reykjanesbær/Helguvíkurhöfn muni fá um 700 milljónir í tekjur á ári. Skuldir hafnarinnar eru á milli 6 og 7 milljarðar. Bæjarfélagið og höfnin munu fá tekjur af öðru kísilveri og annarri starfsemi sem er að aukast í Helguvík. Erum við að sjá fyrir okkur að þessar skuldir verði greiddar upp á næstu 1-2 áratugum? Ef svo mun gerast sem er ekki draumsýn miðað við þessar nýjustu fréttir er ljóst að bæjarstjórinn árið 2030 mun brosa mun breiðar en kollegi hans getur núna.

Páll Ketilsson
ritstjóri.