Vallabakarí og Fíabúð að eilífu

Það verður leitt að sjá á eftir Valla bakara og Lenu konu hans en þau eru að hætta störfum um leið og bakaríið selst. Ásmundur sonur þeirra hjóna hefur reyndar séð um reksturinn síðustu fjögur ár en sá gamli stendur ennþá vaktina. Valgeirsbakarí hefur fyrir löngu fest sig í sessi sem eitt af þeim fyrirtækjum sem alltaf eru til staðar á Suðurnesjum. Það er nú einu sinni þannig í rekstri að öldugangurinn er mismikill og áhafnirnar eru misgóðar. Valli og Lena hafa alltaf siglt lygnan sjó. Rekstur þeirra hefur gengið vel að sögn bakarans reynda öll þau 44 ár sem snúðar og annað kruðerí hefur verið á boðstólnum fyrir sætindaseggi (nýyrði) Suðurnesja. Alltaf hefur bakarinn verið tilbúinn að stökkva til og afgreiða en það sér maður vanalega ekki í flestum bakaríum.

Það eru komnar nokkrar kynslóðir af fólki sem alið er upp við brauðið hjá honum Valla en öll fjölskyldan hans hefur staðið þétt við bakið á honum og unnið í fjölskyldufyrirtækinu. Flestir vita af því að það er ekki langt síðan að rótgróið bakarí í Reykjanesbæ lagði upp laupana. Vallli segir sjálfur frá því að það sé orðið erfitt að fá lærða bakara til starfa og að stéttin eigi í raun undir högg að sækja. Nú þegar ljóst er að reksturinn mun líklega lenda í höndum annarra aðila, er óskandi að sá hinn sami haldi bakaríinu og jafnvel nafninu góða á lofti. Því rétt eins og með Fíabúð (Kostur núna) þá verður húsnæðið ekki kallað annað en Vallabakarí af næstu kynslóðum. Með fullri virðingu fyrir stóru verslununum þá er eitthvað svo íslenskt og notalegt við það að kíkja í bakarí um helgar til þess að næla sér í eitthvað gott með kaffinu. Ég mæli því með því að þið kíkið til Valla á næstunni og heilsið upp á hann. Það eru fáir hans líkir eftir.

Eyþór Sæmundsson

Blaðamaður Víkurfrétta