Útlendingarnir okkar

Nýtt ár er hafið og við lítum aðeins til baka um áramót og hugsum um það góða og eflaust það sem okkur þótti miður í lífi okkar og umhverfi. Það er jú einu sinni þannig að þær eru systur gleðin og sorgin, og þær eru systur okkar allra. En lang flestir kjósa að líta til framtíðar með bjartsýni í huga og nú í byrjun árs 2018 er hægt að segja að það sé tilefni hjá mörgum, ef ekki flestum, til þess. Nýja „góðærið“ hefur líklega náð toppi og birst í mörgum myndum.

Hér á Suðurnesjum eru mörg dæmi um magnaða uppbyggingu og stækkun fyrirtækja. Við fjölluðum nýlega um nokkur slík þar sem starfsemin hefur margfaldast á nokkrum árum samfara aukningu ferðamanna til landsins. Bæjarstjórinn í Reykjanesbæ ræddi útlendingamál í nýársræðu sem hann flutti í Keflavíkurkirkju. Þau tengjast góðærinu okkar því innflytjendur hafa komið okkur til hjálpar í því að sinna mörgum störfum sem tengjast ferðaþjónustunni. Þeir hafa einnig tekið að sér störf sem erfitt er að fá Íslendinga í eins og umönnun, ræstingar og fleira. Bæjarstjóri vekur athygli á því að rétt um fjórðungur íbúa í Reykjanesbæ eða 22% eru útlendingar sem flutt hafa til Suðurnesja og helmingur þess hóps eru Pólverjar. Í Reykjanesbæ eru töluð meira en 30 tungumál og þar býr nú fólk af meira en 60 þjóðernum. Reykjanesbær er í einstakri stöðu hvað þetta varðar hér á landi. Orðinn fjölmenningarbær. Bæjarstjórinn ætlar að leggja til að ráðinn verði sérstakur starfsmaður til að sinna málefnum innflytjenda því málefnin eru fjölmörg sem þarf að taka á. Það þekkist í útlöndum að þar eru jafnvel ráðherra útlendingamála í sumum löndum. Það er ekki úr vegi að velta því fyrir sér hvað myndi gerast ef hluti útlendinga myndu taka upp á því að flytja til síns heimalands. Það er ljóst að Suðurnesin gætu lent í vandræðum ef það myndi gerast. Í umfjöllun okkar um fyrirtæki sem hafa flutt inn flesta starfsmenn frá útlöndum hefur komið fram að þeir hafa lang flestir staðið sig vel í vinnu og margir þeirra hafa verið að koma sér fyrir í samfélaginu á Suðurnesjum. Bílasali sagði við leiðarahöfund nýlega að líklega væri fjórði hver viðskiptavinur innflytjandi á svæðinu. Það stemmir við töluna sem bæjarstjóri nefnir. Það verður fróðlegt að sjá hvernig til tekst hjá Reykjanesbæ en ljóst að það er löngu tímabært að sinna þessum hópi fólks betur.

Það var ánægjulegt að sjá Albert Albertsson, fyrrverandi aðstoðarforstjóra Hitaveitu Suðurnesja fá fálkaorðuna sem veitt er fyrir vel unnin störf á frammistöðu á ýmsum sviðum. Albert er „guðfaðir“ Auðlindagarðsins á Reykjanesi. Í þeim garði eru mörg fyrirtæki sem nýta sér afgangsstrauma tveggja orkuvera HS Orku. Þeirra þekktast er Bláa Lónið. Starfsmenn í fyrirtækjunum í Auðlindagarðinum hafa verið um eitt þúsund og fer fjölgandi með opnun lúxushótels Bláa Lónsins. Meðallaun starfsmanna fyrirtækjanna í garðinum eru hærri en gengur og gerist. Suðurnesin hafa undanfarin misseri því notið afraksturs af hugmyndaauðgi og framsýni Alberts og munu gera um ókomna tíð. Það er því við hæfi að óska Alberti til hamingju með fálkaorðuna. Hann á hana svo sannarlega skilið!