Upplýstur klettaveggur upphafið að stórri bæjarhátíð

Fimmtánda Ljósanótt í Reykjanesbæ er gengin í garð. Fyrsta hátíðin var haldin á aldamótaárinu 2000 og var svona eins og sýnishorn af hátíð í samanburði við Ljósanæturhátíðir undanfarinna ára.

Í viðtali við Valgerði Guðmundsdóttur, menningarfulltrúa Reykjanesbæjar, segir hún megináhersluna á Ljósanótt jafnan vera á tónlist og myndlist. Það er vel við hæfi í bítlabænum og áhugi á myndlist hefur svo sannarlega aukist mikið með tilkomu hátíðarinnar. Eins og alltaf er mikill metnaður lagður í dagskrána og lögð áhersla á að sem flestir taki þátt á einn eða annan hátt. Það kemur svo skemmtilega fram í blöðrusleppingum hundruða skólabarna við Myllubakkaskóla á setningu Ljósanætur. Það er frábært að fylgjast með því þegar krakkarnir sleppa blöðrunum. Á Ljósanótt sameinast svo margt; fyrirtæki, verslanir, listafólk og íþróttahópar nýta tækifærið og bjóða vörur til sölu og margir kaupa og njóta. Sem er bara gott.

Upphafið að Ljósanótt var hugmynd Steinþórs Jónssonar, hótelstjóra, að lýsa upp Keflavíkurbergið. „Þessi svarti klettaveggur sem lýstur var upp um aldamótin skilaði mikilli útgeislun til samfélagsins sem við búum nú við í dag,“ segir Steinþór í viðtali við VF en hann segist ákaflega þakklátur bæjarbúum sem tóku hugmyndinni svona vel og tóku þátt í sjálfboðastarfi fyrstu árin.

Án efa er þetta viðamesta helgi á Suðurnesjum á árinu. Nokkrir tugir þúsunda manna mæta í Reykjanesbæ, njóta dagskrárinnar og samveru með ættingjum og vinum. Samvera er að margra mati stærsti viðburðurinn og auk heimamanna, sem alla tíð hafa sótt hátíðina gríðarlega vel, hafa gestir verið duglegir að mæta. Njótum samverunnar á fimmtándu Ljósanóttinni.

Gleðilega Ljósanótt!