Upp með hökuna og sjálfstraustið

Það var ánægjulegt að heyra um niðurstöður skýrslu Landfræðistofnunar Norðurlandanna að Suðurnesin séu í topp 20 af 74 svæðum, þegar lagt er mat á framtíðarmöguleika í atvinnumálum, íbúaþróun og efnahag. Suðurnesin eru í 18. sæti en Stór-Reykjavíkursvæðið er í 10. sæti en stóru borgarsvæðin eru talin búa yfir mestum krafti og hafa líka mest aðdráttarafl. Suðurnesin eru eina svæðið á Íslandi þar sem staðan hefur batnað miðað við úttektir síðustu ára.

„En ef maður skoðar Suðurnesjasvæðið út frá bæði nálægð við höfuðborgarsvæðið og íbúaþróun og íbúafjölda, þá er þetta svæði sem er mjög líklegt til þess að vaxa ásmegin líka bara í tengslum við ýmsa aðra hagþróun,“ sagði Anna Karlsdóttir, sérfræðingur hjá Landfræðistofnun Norðurlandanna, í viðtali við RÚV um niðurstöður skýrslunnar.

Við höfum svo sem ekkert verið að draga úr þessum jákvæða viðsnúningi hér í Víkurfréttum og fjallað mikið um hann að undanförnu. Skúli Mogensen, eigandi Wow flugfélagsins sagði Suðurnesin vera „sætustu stelpuna á ballinu“ og bætti við að svæðið ætti mesta möguleika allra á að vaxa á næstunni. Skóf ekkert utan af því. Skúli er sprettharður mjög og með sjálfstraustið í lagi. Nú er lag að Suðurnesjamenn setji hökuna upp og sjálfstraustið með.

Það er þó ekki langt síðan að í þessum dálki var verið að skrifa um erfiða stöðu svæðisins og að aðgerða væri þörf. Þessi viðsnúningur hefur orðið á síðustu tveimur til þremur árum af nokkrum þunga en vissulega mátti greina örlítinn bata ár eða tvö á undan. Fyrstu þrjú árin eftir bankahrun voru mjög erfið á Suðurnesjum. Þá var verið að berjast fyrir því að styrkja atvinnuþáttinn með ýmsum aðgerðum, til dæmis að fá fyrirtæki og aðila til atvinnurekstrar á Ásbrú, samanber gagnaver og mörg fleiri dæmi eins og í líftækniiðnaði. Það hefur svo sannarlega gengið og því var laumað að okkur að meira væri framundan. Verne Global gagnaverið á Ásbrú var með næst stærstu fjárfestinguna í tæknigeiranum á Norðurlöndum á síðasta ári. Uppbygging Ásbrúar, gamla hervallarins, hefur gengið ótrúlega vel. En það var líka barist í Helguvík en þar er eitt kísilver að hefja starfsemi eftir nokkra mánuði og annað í startholunum auk ýmislegs annars. Stærsta sprengjan er í flugsækinni starfsemi eins og flestir vita. Við erum að tala um þúsundir nýrra starfa. Á sama tíma og fyrrverandi meirihluti Reykjanesbæjar hefur fengið skammir fyrir skuldasöfnun sem hann á vissulega „skuldlaust“ er að skila sér vinna sem hann var að hamast í. Það er því óhætt að segja að staðan sé skrýtin því mesta vinna hjá núverandi meirihluta Reykjanesbæjar hefur farið í viðræður um skuldalækkun sem nú sér loks fyrir endann á. Á sama tíma er allt í blússandi uppsveiflu í bæjarfélaginu. Það sjá kröfuhafar og hafa því ekki verið neitt voðalega uppglenntir að lækka skuldirnar, vilja bara lengja í þeim. Þessi gullni meðalvegur getur því oft verið erfiður þegar horft er til uppbyggingar samfélagsins okkar.

Í lok þessa pistils er vert að minnast á baráttu nokkurra þingmanna undir forystu Oddnýjar Harðardóttur sem vill láta kanna kosti þess að flytja innanlandsflug til Keflavíkurflugvallar. Að lagt verði mat á rekstrargrundvöll og möguleg sóknarfæri Keflavíkurflugvallar með tilliti til þróunarmöguleika flugvallarins og áhrifa á íbúa, ferðaþjónustu og atvinnulíf á Suðurnesjum. Það hlýtur að vera eðlilegt að sá möguleiki að færa innanlandsflugið til Keflavíkur sé skoðaður af alvöru en tuð og tilfinningar ekki látið ráða ferðinni í þeim efnum.