Unga fólkið sér tækifærin

Olga Björt skrifar.

Óhætt er að segja að heilmikil gróska og uppgangur sé í listum og menningu á Suðurnesjum. Hljómahöllin, Frumleikhúsið og Andrew’s-leikhúsið hýsa hvern viðburðinn á fætur öðrum og Bítlabærinn stendur undir nafni við að „framleiða“ ungt og efnilegt tónlistarfólk. 

Skemmst er að minnast árangurs tónlistarfólks af Suðurnesjum í Músiktilraunum, Samfés-keppninni og Rímnaflæði. Hljómsveitir sem „ólust upp“ í Geimsteini eru lands- og heimsþekktar og verma hvað eftir annað efstu sæti á vinsældalistum. Ofan á allt blómstrar leikhúslíf víða í grunn- og framhaldsskólum þar sem metnaðarfullt ungt fólk setur upp glæsilegar sýningar, eins og að um atvinnufólk sé að ræða. 

Framundan er listahátíðin List án landamæra, þar sem fjölbreytileikinn er í fyrirrúmi og kraftar þaulvans listafólks og áhugafólks eru sameinaðir með áhugaverðum og skemmtilegum árangri. Börn og fullorðnir, fatlaðir og ófatlaðir setja saman upp sýningu þar sem allir múrar hafa verið brotnir niður og hefðbundnir rammar ævintýranna sveigðir til og frá. Þá verður einnig litrík samsýning í Frumleikhúsinu; tölvugerðar teiknimyndir, silkiþrykk, perluverk, sviðsverk og myndband með grínsketsum. 

Í nýjasta tölublaði Víkurfrétta er viðtal við Keflvíkinginn og verkfræðinginn Guðgeir Arngrímsson sem sagði upp einhæfu skrifstofustarfi hjá Advania þegar vinur hans hafði samband við hann og bauð honum að gera með sér gamanmynd. Sem unglingur var hann í hljómsveit og þar með kviknaði áhuginn á því að gera eitthvað óhefðbundið og skapandi. Guðgeir segist oft minnast á það við fólk hversu góð aðstaða sé fyrir hljómsveitir og listir almennt á Suðurnesjum. „Árangurinn er líka eftir því. Meira og minna Suðurnesjamenn eru í bestu nýju hljómsveitum á landinu,“ segir Guðgeir í viðtalinu. 

Óhætt er að taka undir þessi orð Guðgeirs til að minna sjálf okkur á að mesti auðurinn býr í unga fólkinu með allan sköpunarkraftinn. Það sér bara endalaus tækifæri og stekkur yfir allar hindranir. Það er okkar að passa upp á að viðhalda gæðunum í jarðveginum, þar sem allir fá tækifæri til að blómstra.