Umræðan og völdin

Ritstjórnargrein.

Tilkynning um fyrirhugaðan flutning Fiskistofu til Akureyrar hefur ausið vatni á myllur þeirra sem telja að flytja eigi Landhelgisgæsluna til Reykjanesbæjar. Meðal flutningsmanna þingsályktunartillögu allsherjar- og menntamálanefndar um það mál þingárið 2010-2011 eru starfandi ráðherrar í dag, þau Sigurður Ingi Jóhannsson og Ragnheiður Elín Árnadóttir. Auk þess er Sigurður Ingi fyrsti þingmaður Suðurkjördæmis.

Þingmaður Samfylkingarinnar, Oddný Harðardóttir, segir í viðtali við Víkurfréttir að hún hefði haldið að það að flytja Landhelgisgæsluna til Reykjanesbæjar hefði átt að vera fyrsta val ríkisstjórnarinnar í byggðamálum og spyr sig hvers vegna efla eigi atvinnulíf á Akureyri fremur en á Suðurnesjum, þegar Suðurnesin þurfa meira á slíkri eflingu að halda.

Þá er einhugur meðal þingmanna Suðurkjördæmis um flutning Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja og þingmaðurinn Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknar, segir í viðtali við Víkurfréttir að flutningur stofnana út á land sé mikilvægur styrkur fyrir landsbyggðina. „Utanríkisráðherra hefur einnig lýst því yfir oftar en einu sinni að hann sjái miðstöð leitar og björgunar á Suðurnesjum. Það styður enn frekar við það að flytja Landhelgisgæsluna suðureftir,“ segir Silja Dögg.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segir einnig í samtali við Víkurfréttir að hún sé enn á sömu skoðun og hún var þegar hún var meðal flutningsmanna tillögunnar á sínum tíma. Hún telur að Keflavíkurflugvöllur sé besti staðurinn fyrir starfsemi Landhelgisgæslunnar.

Helstu rök gegn flutningi gæslunnar hafa verið þau að það yrði of kostnaðarsamt og flókið vaktalega séð því langflestir starfsmenn búi í Reykjavík. Silja Dögg segir að æ fleiri raddir starfsmanna gæslunnar séu orðnar jákvæðar í garð flutningsins. Vegna starfsmannaveltu muni einnig möguleikar á atvinnu fyrir Suðurnesjamenn hjá Landhelgisgæslunni aukast töluvert. Að ekki sé minnst á eflingu góðs samstarfs ef miðstöð leitar og björgunar flyst einnig á svæðið.

Umræðan er að minnsta kosti komin af stað af krafti á ný og fróðlegt verður að fylgjast með hvað ráðherrar kjördæmisins gera. Þeirra eru völdin.

Olga Björt Þórðardóttir.