Tvöþúsund og sjö bara eins og sumarfrí

„Þetta er svakalegt. Sumir taka svo sterkt til orða að ástandið núna sé eins og sumarfrí árið 2007. Gera bara grín að ástandinu 2007 miðað við núna. Við spyrjum liggur við næsta mann hvort hann sé ekki góður með skrúfjárn. Eftirlaunamenn eru kallaðir úr fríinu í vinnu en þetta dugar ekki til. Við erum búnir að panta útlendinga frá starfsmannaleigunni,“ sagði rafverktaki við leiðarahöfund í vikunni. Ástandið á vinnumarkaði er þannig að það er gargað á fólk til vinnu, það sárvantar iðnaðarmenn í öllum greinum og vonast er til að Íslendingar í Noregi hugsi sér hraðar til hreyfings heim á leið í ljósi verri aðstæðna þar með lækkandi norskri krónu og brjáluðu fjöri á Íslandi.

Svona er staðan víða. Það vantar fólk á flesta staði, mest í fyrirtæki í ferðaþjónustu eða starfsemi tengdri henni. Bílaleigur eru búnar að kaupa upp eða leigja allt laust húsnæði fyrir þúsundir bíla sem rúlla út úr leigunum. Farþegaþjónustufyrirtæki í flugstöðinni eru að kaupa upp blokkir á Ásbrú og útlendingar munu brátt streyma til landsins til í vinnu. Einhvern veginn þarf að þjóna fljúgandi ferðafólki sem kemur til landsins í stríðum straumi og framundan er stærsta sumar í ferðaþjónustu í sögu landsins.

Við ræddum við starfsmenn Isavia í flugstöðinni í vikunni. Þeir eru hvergi bangnir eins og sjá má í viðtali við einn þeirra í sjónvarpsþætti vikunnar. Isavia hefur unnið mikla undirbúningsvinnu og starfsmenn eru klárir í sumarið sem senn skellur á. Aðrir aðilar eru í svipuðum gír, að gera klárt. Það hefur reyndar lítið hægst á hjá flestum því vetrartraffíkin er búin að vera meiri en nokkru sinni fyrr. Enn eitt metið slegið núna í febrúar, um þriðjungi fleiri farþegar en í fyrra. Hvar endar þetta eiginlega?

Þegar við vorum í flugstöðinni í byrjun vikunnar var mikið líf um alla stöð. Ferðamenn um allt. Einhverjir kannski nýkomnir frá Sandgerði úr ferð með Reyni Sveinssyni en hann fékk í síðustu viku Þakkarverðlaun ferðaþjónustunnar á Reykjanesi. Hann segist aðallega segja mannlífssögur og að ferðamenn kunni því vel og þeir vilja heyra um Hallgrím Pétursson og skoða Hvalsneskirkju. Nánar um það í sjónvarpsþætti vikunnar. Ferðamenn fjölmenntu út á Reykjanestá og fylgdust í síðustu viku með súlunni stinga sér í sjóinn og troða loðnu í gogginn. Það voru tugir hnúfubaka að gera líka. Gleypa loðnu í tonnavís. Náttúran í essinu sínu og ferðamennirnir fjölmenntu í marga hvalaskoðunarbáta og gátu hér um bil strokið hnúfubökunum svo nálægt fóru þeir skipunum. Allt að gerast á Reykjanesi.

Páll Ketilsson
ritstjóri.