Tölum okkur upp

Þrátt fyrir að Suðurnesjamenn hafi víða verið í framlínunni og staðið sig vel á mörgum sviðum í gegnum tíðina hefur mörgum, bæði heimamönnum sjálfum og öðrum, fundist neikvæður tónn vera mun háværari á undanförnum árum. Þessu þarf að breyta.

Keflvíkingurinn Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra kemur inn á þetta í fyrsta þætti ársins hjá Sjónvarpi Víkurfrétta. Undir þetta tóku hinir viðmælendur þáttarins, þeir Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar og Þorsteinn Gunnarsson sviðsstjóri hjá Grindavíkurbæ.

„Það er engin ástæða til að vera með neikvæðni. Það er svo margt jákvætt í gangi á Suðurnesjum,“ sagði Suðurnesja-ráðherrann og taldi svo upp mörg dæmi um ný atvinnuverkefni sem hafa farið í gang að undanförnu. Kjartan og Þorsteinn nefndu í uppbyggingu svæðisins eftir bankahrun hafi styrking menntakerfis haft mikið að segja sem og betri námsárangur almennt, m.a. í grunnskólum. Háskólasamfélag á Ásbrú sé svæðinu mjög mikilvægt sem og Fjölbrautaskóli og Fisktækniskóli í Grindavík. Með þungri sókn í ferðaþjónustu og fleiri tækifæra tengdum Helguvík og víðar sé framtíðin björt á Suðurnesjum. Atvinnuleysi er nú með því minnsta á svæðinu og nær allir sem vilja og geta unnið stendur til boða störf í hinum ýmsu greinum. Laun hafa farið hækkandi og starfsánægja einnig samkvæmt nýlegri könnun verkalýðsfélaganna.

Við á Víkurfréttum gerðum nærri fjörutíu hálftíma sjónvarpsþætti á síðasta ári en þar var eingöngu fjallað um góð málefni á Suðurnesjum. Stefnt er að því að halda framleiðslu þáttanna áfram en eitt af markmiðum okkar í þeim var að vekja athygli á svo mörgu jákvæðu og spennandi á Suðurnesjum, hér heima en einnig út fyrir svæðið og þar kom sjónvarpsstöðin ÍNN sterk inn. Þar eru þættirnir sýndir en einnig á vf.is og í Kapalsjónvarpinu í Reykjanesbæ. Við gáfum líka út fimmtíu tölublöð af Víkurfréttum, samtals á annað þúsund blaðsíður og birtum fimmþúsund fréttir á Víkurfréttavefnum, vf.is. Allt á árinu 2014. Við ætlum að nota þetta fréttafjör okkur til hvatningar um að halda áfram að segja frá fólki og fjöri á Suðurnesjum. Tala svæðið upp. Það er engin ástæða til annars.