Tíu ár frá risaákvörðun

Það eru tímamót í sögu Keflavíkurflugvallar eða gamla varnarsvæðisins. Í mars næstkomandi eru tíu ár frá því Bandaríkjamenn tilkynntu brotthvarf Varnarliðsins. Nokkur þúsund Kanar fóru hálfu ári síðar frá Íslandi. Herinn fór með manni og mús.

Tilkynningin var mikið áfall fyrir Suðurnesin og þó svo hún hafi legið í loftinu í all nokkurn tíma vildi fólk einhvern veginn ekki trúa því. Ráðamenn þjóðarinnar höfðu gert ýmislegt til að koma í veg fyrir algeran brottflutning. En svo fór Kaninn á haustdögum 2006 en hann hafði verið á Keflavíkurflugvelli í sextíu ár. Það var mögnuð tilfinning að keyra um Völlinn og virða fyrir sér tómar byggingar og íbúðir í þúsunda vís. Hvað skyldum við nú gera?

Í stuttu máli gerðist það að stofnað var Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, Kadeco. Ungur maður úr Keflavík, Kjartan Eiríksson, var fenginn til að stýra því inn í nýja framtíð sem var umvafin mikilli óvissu. Um það bil eitt þúsund starfsmenn, langflestir Suðurnesjamenn, misstu störf sín við brotthvarf hersins. Góðærið sem þá var að ná hámarki takmarkaði skaðann sem þó var eins og allir vita núna, bara tímabundið. Skaðinn kom síðar með fullum þunga. Suðurnesjamennirnir sem fengu vinnu hjá fjölmörgum fyrirtækjum í vaðandi góðæris-sveiflu voru síðan fyrstir að fjúka þegar þurfti að draga saman seglin, eða hætta rekstri. Þetta er ein stærsta ástæðan fyrir því að atvinnuleysi hér varð hæst á Íslandi eftir bankahrun, nærri því 15%. Einhvern tímann hefðu stjórnvöld þurft að koma til hjálpar þegar svona margir missa vinnuna eins og gerðist þegar herinn fór en þau sluppu einhvern veginn því góðærið reddaði málum. Stjórnvöld voru síðan lömuð og gátu ekkert gert þegar hrunið varð því þá voru Suðurnesjamenn ekki einir í vandræðum þó þau væru mest hér. Þetta var stutt upprifjun á vandræðum vegna Varnarliðs og bankahruns.

Í viðtali við Kjartan Eiríksson í blaði dagsins og sjónvarpsþætti vikunnar fer hann yfir málin og segir frá því hvernig uppbygging nýrrar byggðar, Ásbrúar, hefur gengið, nú þegar tíunda árið gengur í garð. Niðurstaðan er sú að uppbyggingin hefur gengið mjög vel og nú eru þúsundir manna sem ýmist starfa á Ásbrú eða í tengslum við svæðið. „Ásbrú er einstakt verkefni á Íslandi. Með því að umbreyta gamla Vellinum í svæði frumkvöðla, fræða og atvinnulífs aukum við virði þess og sköpum nýtingargrundvöll fyrir eignir,“ segir Kjartan. Þróunarfélagið sjálft hefur notað sjö milljarða króna í margs konar uppbyggingu, viðhald og framkvæmdir og þá hafa fyrirtæki sem hafa komið með starfsemi inn á svæðið einnig fjárfest fyrir tugi milljarða. Þar eru gagnaver til dæmis mjög stór. Verne gagnaverið var t.d. með næst stærstu nýsköpunarfjárfestinguna á öllum Norðurlöndum á síðasta ári. Þá hefur að lang flestra mati tekist vel til með það verkefni að koma íbúðarhúsnæði í notkun, án þess að það hefði mikil áhrif á fasteignamarkaðinn á Suðurnesjum. Stór hluti atvinnuhúsnæðis á Ásbrú er kominn í notkun en Bandaríkjamenn skildu eftir þúsundir fermetra í margs kyns húsnæði sem nú hefur verið nýtt til nýrra hluta. Frumkvöðlastarfsemi hefur gengið vel en líklega er á engan hallað þó svo háskólasamfélagið í Keili sé nefnt sem eitt best heppnaða verkefnið. Það hefur vaxið og dafnað og hefur haft og mun hafa mikil áhrif á samfélagið á Suðurnesjum um ókomna tíð.

Sem sagt: Vel gert allir sem komu að því að endurreisa gamlan hervöll. Til hamingju!

Páll Ketilsson
ritstjóri