Til fyrirmyndar

Olga Björt Þórðardóttir skrifar.

Þau okkar sem misst hafa heilsuna, tímabundið eða til frambúðar, skynja líklega best allra hversu dýrmæt hún er. Margir hverjir, ef ekki flestir, taka góðri heilsu og heilbrigði sem sjálfsögðum hlut. 

Á mínu heimili og eftir að ég flutti að heiman hef ég haft sterka fyrirmynd í föður mínum hvað hreyfingu og mataræði varðar, en hann var langt á undan sinni samtíð með að finna sér leiðir og tíma til þess að stunda líkamsrækt. Hann vissi alltaf (og veit enn) hversu fyrirbyggjandi og mikilvægt það var. 

Algengt er að landinn finni fyrir samviskubiti eftir ofát sem fylgir páskahátíðum og ætlar sko aldeilis að taka á honum stóra sínum og snúa dæminu við, sérstaklega þegar líða fer að sumri. Markmið einhverra gætu verið að breytast í aðdáunarverða hasarkroppa, spígsporandi á ströndum eða sundlaugabökkum. Sumir finna fyrir löngun til að missa einhvern vissan kílóa- eða sentimetrafjölda. Enn aðrir vilja verða sáttir þegar þeir líta í spegil. 

Viðhorf til hreyfingar og heilbrigðis hefur sem betur fer breyst til batnaðar á undanförnum árum og æ fleiri stíga fram til að vekja athygli á virkilega verðugum markmiðum þess að bæta lífsstíl sinn, þ.e.a.s. að líða vel og öðlast aukinn kraft til að takast á við daglegt amstur. 

Elvar Már Þrastarson er annar fulltrúa Suðurnesjamanna í keppninni Biggest Loser, sem lýkur í Háskólabíói í kvöld. Hann ákvað, þrátt fyrir að hafa greinst með aspergen og átt erfitt með að tengjast fólki, að taka sig í gegn, opna sig meira og verða glaðari manneskja. Hann segist í samtali við Víkurfréttir hafa fundið sína getu og sinn farveg í lífsstíl og tekið það með sér út í lífið. Það er líka það sem mestu máli skiptir. 

Í svipaðan streng tekur Sveindís V. Þórhallsdóttir, í öðru viðtali í Víkurfréttum, en hún heillaðist af súlufimi og vill breyta viðhorfi fólks til heilbrigðis. Hún segir fólk almennt of upptekið af árangri tengdum útliti þegar það breytir um lífsstíl en í umræðuna vanti mikilvægi styrkleika og að líða vel í eigin líkama. Kyrrseta sé of viðurkennd samfélagslega og það þurfi meira úrval af ‘fullorðinsíþróttum’ sem fólk ætli sér ekki að keppa í. 

Í námi Sveindísar í íþróttasálfræði er gjarnan gripið inn á vinnustöðum og starfsfólk hvatt til hópeflis tengdu lífsstíl. Við vitum til þess að heilu deildir vinnustaða eru farnar að ‘planka’ saman, taka sig á í mataræði eða hópast í einhvers konar útiveru. Við getum vel hvert og eitt verið góðar fyrirmyndir á okkar vinnustöðum eða öðrum hópum á slíkan hátt og hvatt það til dáða. Og að sjálfsögðu með það að aðalmarkmiði að líða vel og hafa ánægju af.