Þú komst við hjartað í mér

Olga Björt Þórðardóttir skrifar.

Áhugi þingkonunnar Silju Daggar Gunnarsdóttur á líffæragjöfum hófst löngu áður en hún fór á þing. Það kom henni ekki á óvart að um flókið mál væri að ræða þegar hún lagði fram frumvarp til breytingar laga um líffæragjöf í átt til ætlaðs samþykkis. „Við stöndum okkur vel í gjafatíðni lifandi gjafa en sóknarfærin liggja í að fjölga látnum gjöfum,“ segir Silja Dögg í viðtali í nýjasta tölublaði Víkurfrétta. 
 
Hún leiðir starfshóp sem hefur fundað reglulega síðan í haust og mun skila ráðherra tillögum sínum fyrir 1. mars nk. Þess má einnig geta að gagnagrunnur þar sem fólk getur skráð vilja sinn til líffæragjafar var opnaður í lok síðasta árs. Þar hafa 17 þúsund Íslendingar skráð vilja sinn. Siðferðislega telur Silja Dögg eðlilegra að lögin endurspegli ákveðin mannleg gildi sem eru t.a.m. að flestir vilji hjálpa öðrum ef þeir geta því sælla sé að gefa en þiggja. 
 
Margir Suðurnesjamenn þekkja sögu Helga Einars Harðarsonar, sem hefur fengið þrjú hjörtu, að sínu eigin meðtöldu - og nýru um leið. Færri vita að Helgi er líka líffæragjafi, því hjartalokurnar hans voru nýttar í annað barn á sínum tíma. Nákvæmlega fimm árum eftir að Helgi fékk þriðja hjartað fæddist dóttir hans, Sigurbjörg Brynja og segir Helgi hana vera kraftaverkabarn því ekki hafi litið út fyrir það á tímabili að hann gæti nokkurn tímann orðið pabbi. Hann segir frá þessu í viðtali í Víkurfréttum. 
 
Bæði bróðir og sonur Ástu Guðmundsdóttur hafa gefið henni nýra, sem hún kallar þó sín eigin eftir aðgerðirnar. Lyfin eftir fyrri aðgerðina fóru svo illa í Ástu að hún fékk svokallað beinadrep í mjaðmirnar og fékk nýjar mjaðmakúlur árið 1999 og 2000. Einnig þurfti hún nýja augasteina vegna lyfjanna og fékk síðan krabbamein í brjóst árið 2008. Í Viðtali við Víkurfréttir segist Ásta þó vera afar þakklát fyrir allt gott í sínu lífi og klettinn eiginmann sinn, sem hún segir að hafi aldrei viljað skipta um konu, heldur bara fara með hana á partasölu til að fá varahluti. Húmorinn hafi ætíð skipt miklu máli í veikindunum. 
 
Helgi Einar og Ásta fagna bæði aukinni og jákvæðri umræðu um líffæragjafir, sem og frumvarpinu sem er til afgreiðslu á Alþingi. Það kemur við hjörtu margra hversu mikið vonin um styttri biðlista eftir líffærum eykst með hverjum deginum. Það er mikið í húfi þegar um er að ræða möguleika á nýju og betra lífi sem ekki fæst á annan hátt. Einnig mætti segja að hluti þeirra sem gefa líffæri sín eftir sinn dag fái nokkur konar framhaldslíf í öðrum.