Þegar viljinn er fyrir hendi

Dagný Hulda Erlendsdóttir, blaðamaður skrifar

Starfsfólkið á Soho sýnir okkur í Víkurfréttum í dag að allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi. Þar byrjaði pólskur heyrnarlaus kokkur að vinna síðasta haust. Það skemmtilega er að hann hefur ekki átt í neinum vandræðum með að eiga í samskiptum við samstarfsfólkið sitt. Þau hafa með glöðu geði lært táknmálstákn og nota þau í vinnunni. Að sama skapi hefur kokkurinn lært íslensk orð og getur því lesið uppskrifir og pantanir og stefnir að því að ná fullum tökum á íslensku. Þegar þess þarf nota þau svo símann og skrifa þar inn í Google Translate þannig að kokkurinn geti lesið á pólsku og þau hin á íslensku eða ensku.

Við ræddum líka við yfirmatreiðslumeistarann á veitingastaðnum sem vildi beina því til vinnuveitenda að gefa fólki með fötlun tækifæri á vinnumarkaði. Það er eitthvað fallegt við þessa litlu sögu af Soho, svona á tímum þar sem sundrandi öfl hafa komist til valda bæði í Bandaríkjunum og í ríkjum Evrópu þar sem sú hugmyndafræði ríkir að horfa frekar á það sem sundrar fólki en sameinar. Fyrir sum okkar er það áskorun að vinna með fólki sem talar annað tungumál og fyrir önnur okkar er það alveg örugglega líka áskorun að vinna með fólki sem ekki getur heyrt né tjáð sig með því að tala. Hópurinn á Soho hefur sýnt okkur að svoleiðis þarf það alls ekki að vera.

Dagný Hulda Erlendsdóttir

Blaðamaður, Víkurfréttum