Þegar stóri fiskurinn étur þá litlu

Málefni aldraðra á Suðurnesjum verða meðal stórra viðfangsefna aðalfundar sveitarfélaga á Suðurnesjum um helgina. Ljóst er að þessi málaflokkur á eftir að verða fyrirferðameiri á næstu árum vegna hækkandi lífaldurs fólks.

Á Suðurnesjum hafa sveitarfélögin starfað saman að málefnum aldraðra en nú er svo komið að á milli 50 og 60 manns bíða eftir að fá pláss á hjúkrunarheimili á Suðurnesjum. Það er alvarleg staða og þetta mun verða stórmál hjá sveitarfélögunum á næstu áratugum en verkefnið er unnið í samstarfi við ríkisvaldið. Það verður forvitnilegt að fylgjast með umræðum um þetta mál um helgina á aðalfundi sveitarfélaganna á Suðurnesjum. VF hefur heyrt að sameining sveitarfélaga muni einnig verða rædd en það er áratuga gamalt mál. Nú þegar verkefni sveitarfélaga eru sífellt að verða stærri og flóknari kallar það á stærri einingar, öflugri sveitarfélög. Það ætti að vera nokkuð borðliggjandi að Garður, Sandgerði og Vogar sameinist Reykjanesbæ á næstu árum. Fylgja þannig eftir rúmlega tuttugu ára gamalli sameiningu Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna. Hagræðing er lykilorð í þessari umræðu. Stóri fiskurinn er ekki að fara að éta þá litlu en þannig var málið m.a. kynnt af bæjarstjóra Sandgerðis á fundi þar í bæ árið 1993 þegar sameining sveitarfélaga var rædd og kynnt bæjarbúum. Ríkisvaldið hvatti til sameininga um allt land og stærsta sameining landsins varð þegar Reykjanesbær varð að veruleika, með sameiningu Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna. Rekstur sveitarfélaga hefur af ýmsum ástæðum þyngst á undanförnum áratugum. Til þess að fylgja eftir ábyrgðum og þjónustuskyldu sveitarfélaga þurfa þau að vera stærri og öflugri. Það þarf engan sérfræðing til að finna það út. Nú verða sveitarstjórnarmenn að setjast niður og ræða málið af alvöru. Það hefur ekki verið gert í tvo áratugi. Nú þarf að láta skynsemina ráða en ekki tilfinningar.