Þegar margir hjálpast að

Oft er sagt að gott sé að búa í litlu samfélagi þegar eitthvað óvænt kemur upp á. Guðlaug Erla Björgvinsdóttir, ung móðir úr Grindavík, eignaðist stúlku síðasta sumar og kom í ljós stuttu eftir fæðinguna að hún var með krabbamein í augum. Mæðgurnar hafa farið nokkrar ferðir til Svíþjóðar í krabbameinsmeðferðir og til allrar hamingju hefur stúlkan náð góðum bata. Líkur er á að hún eigi eftir að hafa fína sjón í framtíðinni. Í Víkurfréttum vikunnar er viðtal við móðurina. Fjölmargir á Suðurnesjum hafa stutt við bakið á þeim mæðgum undanfarnar vikur. Krakkar í sunddeild Grindavíkur syntu maraþonsund og söfnuðu styrkjum og í Sjónvarpi Víkurfrétta í síðustu viku var rætt við Magnús Má Jakobsson, sundþjálfara krakkana. Í máli hans kom fram að það væri styrkur þeirra í Grindavík að þegar eitthvað bjáti á standi þeir saman. Sigvaldi Arnar Lárusson, varðstjóri hjá Lögreglunni á Suðurnesjum, stóð fyrir Umhyggjugöngunni í sumar og safnaði fyrir mægðurnar. Í viðtalinu við Guðlaugu kemur fram öll hjálpin sem hún hefur fengið á undanförnum vikum hafi skipt miklu og gangi allt að óskum sér hún jafnvel fram á að þurfa ekki á meiri aðstoð að halda.


Saga Guðlaugar og Ólavíu er gott dæmi um það þegar samfélagið tekur utan um fólk og hjálpar því yfir erfiða hjalla. Í blaðinu er einnig umfjöllun um Rauða kross búðina í Reykjanesbæ. Þar starfar fjöldi sjálfboðaliða, sér til ánægju og hjálpar öðrum. Þar er vikulega flokkað eitt tonn af fötum og þau ýmist seld í búðinni eða send áfram til Reykjavíkur og til útlanda. Hjá Rauða krossinum í Reykjanesbæ er einnig fataúthlutun þar sem fólk getur valið sér það sem því vanhagar um, eins og rúmföt, handklæði og fatnað. Í máli Halldóru Blöndal, verkefnastjóra hjá Rauða krossinum, kemur fram að fólk komi ekki alltaf sjálfviljugt og biðji um hjálp heldur þurfi stundum að sækja það. Það hikar Halldóra ekki við að gera. Starf Rauða krossins í Reykjanesbæ er dæmi um styrk samfélagsins. Íbúarnir eru sjálfboðaliðar og sýna gott fordæmi og samfélagslega ábyrgð.