Það vantar starfsfólk til Suðurnesja

– Ritstjórnarpistill eftir Hilmar Braga Bárðarson

Ferðaþjónustan er að vaxa á gríðarlegum hraða og vöxturinn er allt árið. Það er af sem áður var að fyrirtæki í þjónustu við flugið bættu við sig fjölda starfsmanna yfir sumarmánuðina og fækkuðu svo aftur á haustin. Nú fjölgar þeim sem hafa atvinnu af flugtengdri þjónustu allt árið þó svo að ráða þurfi inn fleira fólk yfir sumarmánuðina en nú er það ráðið til að leysa af starfsmenn sem fara í sumarleyfi.

Framundan er mikil uppbygging við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Stækka þarf flugstöðina til allra átta til að anna öllu því álagi sem aukinn ferðamannastraumur veldur. Í síðustu viku var því fagnað að viðamiklum breytingum á norðurbyggingu flugstöðvarinnar var lokið þar sem verslunar- og veitingasvæði var gjörbreytt til hins betra. Ekki veitir af því ferðamönnum um flugstöðina fjölgar svo hratt að menn eiga erfitt með að halda í við fjölgunina.

Í viðtali við Sjónvarp Víkurfrétta, vikulegan þátt frá Suðurnesjum, sem sýndur er á sjónvarpsstöðinni ÍNN og á vef Víkurfrétta, vf.is, er rætt við Björn Óla Hauksson, forstjóra Isavia. Hann er m.a. spurður út í alla þá fjölgun ferðamanna og hvaða áhrif hún er að hafa og m.a. þá vaxtaverki sem hún er að valda.

„Það eru rosalegir vaxtaverkir, en ég ætla samt að segja að fólkið hérna, bæði verktakar, okkar eigið fólk, þjónustuaðilar og verslanir hafa allir staðið saman til að tryggja það að geta haldið frábærri þjónustu, eins og við vorum með 2014, þegar við vorum besti flugvöllur Evrópu. Það er ekki mat einhverra aðila úti í bæ. Það er mat farþeganna sem fara um flugstöðina. Það sem var gaman þegar menn voru að vinna hérna var að það voru svo góðar niðurstöður úr þjónustukönnunum og það sagði okkur að menn stóðu sig vel í öllum látunum, hávaðanum og rykinu. Þá voru menn að vinna sína vinnu frábærlega. Maður getur bara verið stoltur að vera hluti af því,“ segir Björn Óli m.a. í viðtalinu.

Hann er einnig spurður að því hvernig gangi að manna öll störf í flugstöðinni nú þegar atvinnuleysi á Suðurnesjum er orðið mjög lítið?

„Ég get nú bara sagt að við höfum smá áhyggjur af því. Á næsta ári erum við að tala um 700-800 þúsund farþega í viðbót og auðvitað þarf að sinna þeim. Við höfum séð að menn hafa nánast stolið góðu starfsfólki hver frá öðrum á svæðinu. Við ætlum að reyna að ná mönnum inn og ég held að það sé gott fyrir Suðurnesin að það vantar greinilega gott fólk. Það er kominn tími á að benda fólki á að það er pláss fyrir fólk að flytja hingað í gott húsnæði með góðri aðstöðu og vinnu sem hægt er að fá til framtíðar, ekki bara í einhvern stuttan tíma. Ég vona að sem flestir flytji hingað til Suðurnesja til að koma að vinna hjá okkur eða samstarfsaðilum okkar,“ segir forstjóri Isavia í viðtali við Sjónvarp Víkurfrétta.

Viðtalið í heild má sjá í Sjónvarpi Víkurfrétta.