Það eru litlu hlutirnir sem gera Ljósanótt einstaka

Leiðari vikunnar

Undirritaður var víða á vappi á Ljósanótt. Smellti myndum af hundruðum, jafnvel þúsundum andlita og heilsaði upp á gamla félaga og kunningja á förnum vegi. Það eru nokkrir viðburðir sem standa upp úr á Ljósanótt. Flugeldasýning, blöðrusleppingar, árgangaganga og fjöldi stórtónleika. Sjálfum finnst mér þessir viðburðir ekki þeir sem gera Ljósanótt að þeirri hátíð sem hún er orðin. Það eru litlu hlutirnir. Júlli sonur Rúnna Júll með tónleika í stofunni hjá mömmu sinni á Skólaveginum. Bröns Keflvíkinga á Sunnubraut til þess að koma manni af stað á laugardagmorgni. Þessi sérstaka stemning sem skapast á fimmtudagskvöldum þegar nær eingöngu heimafólk er á ferð um miðbæinn okkar sem sannarlega má muna sinn fífil fegurri. Það kvöld er menning og verslun á svæðinu í algjöru hámarki. Ég get alveg viðurkennt það að mér leið eins og í „gamla daga“ þegar ég leit yfir Hafnargötuna síðasta fimmtudagskvöld. Það var eins og klukkan væri 3:00 á nóttu um helgi og nýbúið að henda öllum út af Strikinu og Kaffi Keflavík. Maður beið bara eftir því að slagsmálin hæfust. Án gríns þá var þetta virkilega skemmtileg upplifun og þörf áminning til okkar um hvað gæti orðið í miðbænum.

Það er engin töfralausn á því hvernig við eigum að glæða miðbæ Reykjanesbæjar lífi. Ég tel mig þó vera með ágætis uppástungu. Það þarf einfaldlega að gera hugarfarsbreytingu hjá fólkinu. Bara það að skella sér niður í bæ og versla nokkrar flíkur og fá sér 2-3 drykki, sé í góðu lagi utan Ljósanætur. Það má alveg sko! Jafnvel þó þú sért kominn yfir þrítugt. Við þurfum líka að vera dugleg að brydda upp á nýjungum á hverri hátíð. Þá er ég ekki að tala um að afhjúpa listaverk og stæra okkur af flottum framkvæmdum í bænum. Heldur þurfum við að halda götusölu, opna heimili okkar, bjóða í bröns. Gerum þetta persónulegt. Ég er ekki með góða hugmynd alveg núna, en þær eru þarna úti. Þið eruð með þær.

Ljósanótt er orðin rótgróin og mun vafalaust lifa áratugi í viðbót, hver veit? Fjölbreytnin er gífurlega mikil á Ljósanótt, þar er eitthvað fyrir alla. Hátíðin er orðin ein af stærstu bæjarhátíðum landins og stendur nú yfir í fimm daga. Hún hefur sína sérstöðu og skapar bænum miklar tekjur og gott orðspor. Yfir hverju er ég þá að kvarta?

Eyþór Sæmundsson
Blaðamaður