Það er mikilvægt að tilheyra

Olga Björt Þórðardóttir skrifar.

Það búa ekki öll börn við það að eiga foreldra sem geta sinnt hlutverkum sínum sem skyldi. Baklönd margra barna eru beygð eða brostin og þá reynir á úrræði til að tryggja sem besta velferð þeirra á mikilvægum mótunarárum.

Sex börn og ungmenni eru í varanlegu fóstri hjá hjónunum Karen Jónsdóttur og Vilhjálmi Einarssyni í Akurhúsum í Garði. Fósturforeldrar sinna mikilvægu hlutverki við að móta og bæta líf barna. Að vera fósturforeldri felst lítið og annað meira en að vera foreldri; veita húsaskjól, fæðu, öryggi, hlýju og hlusta og hvetja. 

Skortur er á fósturforeldrum í tímabundnu og styrktu fóstri á Suðurnesjum. Þótt fóstur sé alltaf neyðarúrræði er það mikilvægt innlegg í velferð og framtíð barnanna, þó ekki sé um að ræða langan tíma. Langur, en þó mislangur, aðdragandi er að hverju fóstri fyrir sig. Það er almennt búið að reyna öll stuðningsúrræði áður. 

Þau sem vilja gerast fósturforeldrar fara í gegnum ferli þar sem hagsmuna barnanna og öryggis er gætt. Síðan hafa viðkomendur tækifæri til að gefa af sér og leyfa börnum að njóta þess að fá mögulega sömu tækifæri í lífinu og önnur börn. „Að leyfa þeim fá að vera hluti af virkri fjölskyldu og láta gott af sér leiða,“ segir Þórdís Elín Kristinsdóttir, félagsráðgjafi hjá fjölskyldu- og félagsþjónustusviði Reykjanesbæjar, í viðtali í nýjasta tölublaði Víkurfrétta. 

Fósturmamman Karen segir í sömu umfjöllun að um sé að ræða vinnu sem oft sé erfið en ósköp gefandi. Tvær ungar konur, Thelma Hafrós og Árný Inga, hafa búið í Akurhúsum i 6 og 8 ár. Þær segja það hafa eiginlega bjargað lífi sínu að finnast þær vera hluti af heild; hluti af fjölskyldu. Fósturforeldrarnir urðu svo góðar fyrirmyndir að Árný Inga ætlar sjálf að verða fósturmamma síðar á lífsleiðinni. 

Það er ómögulegt að setja sig í spor barna sem þurfa á slíkum neyðarúrræðum að halda að vera tekin af heimilum sínum og komið fyrir annars staðar, tímabundið eða varanlega. Það er samt eitthvað svo ótrúlega fallegt við að það sé til svo vel gert og yndislegt fólk sem hefur svo mikið að gefa að það vill leyfa slíkum einstaklingum að njóta þess. 

Lítum aðeins inn á við um stund og spyrjum okkur hvort við gætum jafvel bæst í hóp slíks fólks.