Súrt ástand í Sandgerði

– Leiðari Víkurfrétta úr 36. tölublaði

Í Sandgerði eru um 550 fasteignir sem eru flokkaðar sem íbúðir. Af þessum eignum eru um 90 í eigu Íbúðalánasjóðs og hafa komist í eigu sjóðsins eftir hrun. Það er hins vegar sorglegra að á uppgangstímum á Suðurnesjum þá standa um 50 af þessum 90 eignum í Sandgerði auðar og yfirgefnar. Uppbygging er í atvinnulífinu í Sandgerði og íbúum ætti að vera að fjölga. Þeim hefur hins vegar fækkað, því skortur er á húsnæði á sama tíma og þessar 50 fasteignir standa auðar.

Ólafur Þór Ólafsson, forseti bæjarstjórnar Sandgerðis, segir í samtali við Víkurfréttir í dag að hann hafi fundið fyrir vilja fólks til að setjast að í Sandgerði. Þar skorti hins vegar húsnæði á sama tíma og tugir eigna standi auðar og yfirgefnar. Þegar allar forsendur segja að íbúum ætti að vera að fjölga, þá er íbúum Sandgerðis að fækka. Það er uppbygging í atvinnulífi Sandgerðis og hefur verið aukning í atvinnu á öllu svæðinu en útaf þessari stöðu á fasteignamarkaði þá er að fækka íbúum.

Í viðtali við Víkurfréttir í dag segir Ólafur Þór m.a.: „Sem forsvarsmaður sveitarfélags er það sárt og vont að horfa uppá fjölskyldufólk og fólk sem á ekki þak yfir höfuðið, vitandi um tómu eignirnar, að sveitarfélagið geti ekki hjálpað þessu fólki. Það eru færri börn í skólanum og við nýtum leikskólann ekki eins vel. Við viljum fjölga íbúum, því þannig er auðveldara að standa undir rekstri sveitarfélags og mannlífið verður blómlegra.“

Ástandið í Sandgerði er ekkert einsdæmi. Í Sveitarfélaginu Garði eru einnig fjölmargar tómar íbúðir í eigu Íbúðalánasjóðs. Sagan er svipuð úr Reykjanesbæ. Við fluttum einmitt af því fréttir á dögunum að eignasafn Íbúðalánasjóðs eða Leigufélagsins Kletts, sem er í eigu sjóðsins, sé risavaxið á Suðurnesjum. Um síðustu áramót voru eignir sjóðsins 781 íbúð á Suðurnesjum, 418 voru í sölumeðferð og 347 í leigu.

Starfshópur skipaður fulltrúum Sandgerðisbæjar og Íbúðalánasjóðs hefur verið að skoða stöðu eigna sjóðsins í Sandgerði með það að markmiði að leggja fram tillögur um það hvernig megi bæta ástandið. Þessi vinna hefur leitt í ljós að stór hluti af þessum fasteignum séu farnar að súrna, þ.e. eignirnar eru verðlagðar of hátt og ástand eignanna er þannig að of dýrt er að koma þeim aftur á markað, hvort sem er í sölu eða leigu. Vinnuhópurinn mun skila af sér tillögum á næstu vikum.

Kerfið er hins vegar þungt í vöfum og því mun ástandið í Sandgerði áfram verða súrt um nokkurt skeið. Það er alls ekki gott því á Suðurnesjum hefur orðið mikill viðsnúningur í atvinnumálum. Nú má segja að hrópað sé á vinnuafl. Það vantar vinnandi hendur á flestum sviðum atvinnulífsins en á sama tíma skortir húsnæði.

Hilmar Bragi Bárðarson