Suðurnesjauppsveifla

Við erum búin að vera nokkuð mikið á jákvæðum nótum hér í forystugreinum að undanförnu og höldum því áfram á meðan ástæða er til. Samfélagið á Suðurnesjum er heldur betur að rísa úr öskustónni eftir erfið ár í kjölfar hrunsins. Í vikunni var kunngert að tuttugu og fimm fyrirtæki á Suðurnesjum hafi verið í hópi Fyrirmyndarfyrirtækja á Íslandi. Árið 2010 þegar Creditinfo veitti þessa viðurkenningu voru aðeins fimm fyrirtæki á Suðurnesjum í hópnum. Fimm árum síðar eru fimm sinnum fleiri fyrirtæki á listanum af Suðurnesjum. Það er aldeilis frábær árangur og sýnir kannski enn betur og staðfestir þá uppsveiflu sem hefur orðið á svæðinu á síðustu árum.

Í blaði vikunnar má sjá dæmi sem vert er að vekja athygli á og tengjast jákvæðri uppbyggingu og sókn á Suðurnesjum. Háskólasamfélagið Keilir á Ásbrú er í þremur jákvæðum fréttum eða umfjöllunum. Í fyrsta lagi að skólinn sé að fara að bjóða upp á framhaldsskólanám og í öðru lagi uppgangur í flugnámi skólans. Í þriðja lagi er nám í fótaaðgerðafræðum. Flugvirkjanám hófst haustið 2013 og nýlega voru fyrstu nemarnir útskrifaðir, 22 talsins. Keilismenn hafa frá upphafi tengst nokkrum af helstu greinunum í atvinnulífinu á Suðurnesjum eins og í þessu tilfelli, fluginu. Nýlega greindum við líka frá miklum uppgangi í Flugakademíu skólans en 65% nemenda í flugi koma erlendis frá. Fleiri jákvæð dæmi væri hægt að nefna sem tengjast Keili á Ásbrú en framkvæmdastjóri Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar sagði einmitt frá því í ítarlegu Víkurfrétta-viðtali að eitt af því sem hefði tekist vel í uppbyggingunni á gamla hervellinum, væri Keilir. Skólinn dregur að sér athygli, námsfólk í þúsundavís og veitir störf. Magnað og jákvætt.

Í blaði vikunnar og síðustu tölublöðum Víkurfrétta hefur mátt sjá mikla aukningu í birtingu atvinnuauglýsinga sem margar koma frá fyrirtækjum og stofnununum í tengslum við Keflavíkurflugvöll. Þetta styður þá umræðu um uppgang í atvinnulífinu og atvinnuleysistölur sýna að ekki verður umvillst að það er sveifla á Suðurnesjum. Alvöru uppsveifla.