Störfum fjölgar og samstarf í uppnámi

Viðburðaríkt ár á Suðurnesjum er senn á enda. Árið einkenndist af fréttum af uppbyggingu í kjölfar erfiðleika. Eftir mögur ár frá hruninu 2008 má segja að mikill viðsnúningur hafi orðið á árinu 2015. Suðurnesjamenn höfðu glímt við mikið atvinnuleysi og hér var það mest á landsvísu í mörg ár eftir hrun. Í ár horfðust menn hins vegar í augu við þá staðreynd víða í atvinnulífinu á Suðurnesjum að skortur var á vinnufúsu fólki. Þess varð vart í flugstöðinni snemma á árinu. Þar gekk illa að manna allar stöður og á sama tíma fjölgaði ferðamönnum hraðar en bjartsýnustu spár höfðu gert ráð fyrir. Fréttir bárust líka af því að sama staða væri víðar uppi á Suðurnesjum að erfiðlega gengi að ráða starfsfólk. Nú undir árslok var atvinnuleysið komið niður fyrir 3% og er t.a.m. í sögulegu lágmarki hjá félagsmönnum Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis.

Störfum í ferðaþjónustu á Suðurnesjum á eftir að fjölga umtalsvert strax á næsta ári. Hundruð nýrra starfa verða til í og við flugstöðina þar sem ferðamannastraumurinn vex mjög hratt. Á sama tíma er hafin uppbygging af krafti í Helguvík. Þar rís nú eitt kísilver sem hefur starfsemi um mitt ár 2016 og þar þarf um 100 starfsmenn. Stefnt er að uppbyggingu annars kísilvers en það hefur verið talsvert í fréttum þar sem efnt var til mótmæla vegna þess og krafist kosningar um breytingar á deiliskipulagi lóðar kísilversins. Mótmælendur fóru söfnuðu nægilega mörgum undirskriftum sem skuldbundi bæjaryfirvöld að efna til kosninga um deiliskipulagið. Hins vegar varð kosningaþátttaka dræm en skipulagið var þar samþykkt. Uppbyggingin í Helguvík er mikilvæg fyrir blankan bæjarsjóð Reykjanesbæjar sem hefur verið talsvert í fréttum á árinu enda hafa viðræður við kröfuhafa gengið hægt.

Fjármál bæjarins hafa verið talsvert í fréttum á árinu sem er að líða. Í erfiðleikum sínum hefur Reykjanesbær horft í veskið og á sama tíma sett samstarf sveitarfélaga á Suðurnesjum í uppnám. Kergja er í samstarfinu en á sama tíma heyrist af því að óformleg samtöl um sameiningu sveitarfélaga séu að eiga sér stað. Garðmenn og Sandgerðingar stinga saman nefjum heyrst hefur að Grindvíkingar og Vogamenn séu í svipuðum samtölum og Garður og Sandgerði.

Hvað mun nýtt ár bera í skauti sér? Vonandi mun svæðið halda áfram að blómstra. Allt það jákvæða og skemmtilega sem er að eiga sér stað á Suðurnesjum er t.a.m. efniviður okkar hjá Víkurfréttum í vikulegum sjónvarpsþætti okkar, Sjónvarpi Víkurfrétta, sem sýndur eru á sjónvarpsstöðinni ÍNN, á Kapalvæðingunni í Reykjanesbæ og á vf.is. Þættir ársins urðu 49 talsins sem gerir næstum 25 klukkustundir af sjónvarpsefni úr smiðju Víkurfrétta þetta árið. Við höldum áfram að framleiða sjónvarpsefni frá Suðurnesjum á nýju ári og ætlum að efla sjónvarpsþjónustu okkar m.a. á vef Víkurfrétta, vf.is.

Hilmar Bragi Bárðarson