Stopp - hingað og ekki lengra!

Eitt af verkefnum ársins 2016 á Suðurnesjum var stofnun hóps sem vildi þrýsta á framkvæmdir á Reykjanesbraut frá Fitjum í Njarðvík að flugstöðinni í kjölfar hörmulegs banaslyss. Hópurinn var stofnaður á samfélagsmiðlinum Facebook og yfir 16 þúsund manns gerðust meðlimir. Árangur af starfi hópsins sem fékk heitið „Stopp - hingað og ekki lengra!“ kom í ljós þegar leið á árið þegar samþykkt var að fara í framkvæmdir við tvö hringtorg fyrr en áætlað var og eins að koma tvöföldun brautarinnar út að flugstöð á Samgönguáætlun en þar hafði hún ekki verið, hversu ótrúlega sem það kann að hljóma.

Stopp-hópurinn er „Suðurnesjamenn ársins“ og forsvarsmenn hans tóku við viðurkenningu frá Víkurfréttum og komu í viðtal sem sjá má í blaði og sjónvarpsþætti vikunnar. Þeir Guðbergur Reynisson og Ísak Ernir Kristinsson komu í viðtalið fyrir hönd hópsins en þeir hafa verið aðal sprauturnar í honum en segja þó að þessi viðurkenning sé til þeirra rúmlega 16 þúsund manna sem voru með í hópnum. „Þó að við Guðbergur séum hér í viðtali þá er það bara af því að við stofnuðum hópinn. Við erum bara vinnuhestar. Okkur vantaði með okkur skapandi fólk með þekkingu og einnig stuðning frá almenningi til að ná sem bestum árangri. Það gekk eftir og er mjög ánægjulegt. Margir lögðu á sig mikla vinnu fyrir málstaðinn, komu jafnvel fyrr heim úr sumarbústað til að koma á fund fyrir hönd hópsins,“ segir hinn ungi Ísak Kristinsson sem var talsmaður hópsins og kom meðal annars fram í fjölmiðlum fyrir hönd hans.

Í viðtali við forsvarsmenn hópsins og fleiri aðila úr honum segja þau að samstaða Suðurnesjamanna hafa skipt sköpum í þessu verkefni. „Þegar við hér á Suðurnesjum stöndum saman og róum í sömu átt gengur okkur ótrúlega vel,“ segir Ísak. Undir það er hægt að taka. Hér sinnti fólk samfélagslegu verkefni og sýndi þannig samfélagslega ábyrgð. Framkoma hópsins var til fyrirmyndar þar sem lögð var áhersla á að koma verkefninu áfram með krafti en þó ákveðinni stillingu. Það muna margir eftir því hvað nokkrir einstaklingar gerðu í framhaldi af þremur banaslysum á brautinni árið 2000. Hann lokaði Reykjanesbrautinni til að ná athygli ráðamanna. Þá þótti það nauðsynlegt til að vekja athygli á nauðsyn tvöföldunar brautarinnar. Í framhaldinu var stofnaður „Áhugahópur um örugga Reykjanesbraut“. Hann efndi til íbúafundar í Stapa og afhenti samgönguráðherra skóflu til að taka fyrstu skóflustunguna að tvöföldun Reykjanesbrautar en það mál hafði lengi verið í umræðunni á Alþingi og meðal ráðamanna án þess að nokkuð gerðist. Þarna varð til hreyfing meðal almennings sem stóð upp og sagði sama og nýi áhugahópurinn heitir: Stopp - hingað og ekki lengra! Og það gekk eftir. Tvöföldun fór í gang og á næsta tæpa áratug var stór hluti Reykjanesbrautar tvöfaldaður í tveimur verkþáttum, frá Njarðvík lang leiðina að álverinu í Straumsvík. Síðan hefur Brautin verið á hliðarlínunni á hinu háa Alþingi og lítið sem ekkert gerst. Nú er sú samgöngubót, að ljúka framkvæmdum við tvöföldun frá Fitjum í Njarðvík komin á Samgönguáætlun og gerð tveggja hringtorga á þeirri leið verið ákveðin og verður gerð á þessu ári.

Við íbúar á Suðurnesjum þökkum Stopp-hópnum fyrir þeirra framlag og vonumst til að hann eigi eftir að áorka meiru. Forsvarsmenn hans segja alla vega: „Við erum rétt að byrja.“

Páll Ketilsson
ritstjóri