Stærsta auðlind Suðurnesjamanna

Iðanaðarskolp skaffar 400 störf á Suðurnesjum

Auðlindir þjóðarinnar um allt land hafa verið mikið í umræðunni undanfarin ár, ekki síst fiskurinn og orkan. Stofnun Hitaveitu Suðurnesja fyrir fjórum áratugum reyndist magnað framfaraspor sem forsvarsmenn sveitarfélaganna á Suðurnesjum stigu fyrir íbúa á Suðurnesjum. Í dag njóta Suðurnesjamenn þess að fá ótakmarkað og ódýrt, heitt og kalt vatn og rafmagn, frá HS Orku og HS Veitum. Árið 2008 voru sett lög um skiptingu orkufyrirtækja og þessi tvö félög urðu til við skiptingu Hitaveitu Suðurnesja. Það er nokkuð víst að þó forsvarsmenn okkar við stofnun HS á sínum tíma, hafi verið framsýnir mjög, hafi þá örugglega ekki grunað hversu magnað framhaldið yrði hér á Suðurnesjum.

Fjórum áratugum síðar er gjarnan talað um Auðlindagarð á Reykjanesi og hefur að geyma tvö orkuver á Reykjanesi og í Svartsengi í Grindavík, - sem endurnýjanlega auðlind og sjálfbæra vinnslu, 100% grænn með jarðvarma í grunninn, þar sem ekkert fer til spillis og hrat eða afgangur frá einu fyrirtæki verður að aðföngum annars. Algerlega einstakt fyrirbrigði í heiminum.

Jefferson William Tester prófessor við Cornell háskóla í Bandaríkjunum er einn af virtustu fræðimönnum í heimi á sviði orkumála og hefur látið í veðri vaka að Auðlindagarðurinn á Reykjanesi sé besta dæmið um nýtingu jarðhita í heiminum. Þar sé fjölnýting í hávegum höfð og  aukaframleiðslu-áhrifin („spin off“) hreint út sagt ótrúleg. Hann var einn af fyrirlesurum á Nýsköpunarþingi sem haldið var á Ásbrú síðasta haust.

Í viðtölum Sjónvarps Víkurfrétta við Albert Albertsson, aðstoðarforstjóra og Ásgeir Margeirsson, forstjóra HS Orku, fara þeir yfir stöðu mála.

Albert lýsir því hvernig iðnaðarskolp eins og hann kallar það gjarnan, er nýtt til atvinnuskapandi verkefna hjá fjölda fyrirtækja á Suðurnesjum. Hjá þessum fyrirtækjum hafa skapast um 400 störf og fer fjölgandi. Þar fer Bláa Lónið auðvitað fremst í flokki en þarna má líka nefna fyrirtæki eins og Stolt Seafarm en það rekur fiskeldi sem framleiðir einn verðmætasta flatfisk í heimi, sem og fleiri aðila í sjávarútvegi og öðrum greinum.

Iðnaðarskolpið sem Albert nefnir er vökvinn sem kemur út úr orkuverunum eftir notkun, jafnan kallaður hrakstraumar. Hið öfluga fyrirtæki Bláa Lónið nýtir hrakstrauma frá orkuverinu í Svartsengi sem annars væri hent. Bláa lónið fer enn lengra í nýtingu fleiri efna eins og kísilinn og rækta síðan þörunga, til framleiðslu snyrtivara. Úr jarðhitanum myndast líka gas sem nýtist nýlegu fyrirtæki sem nefndist Carbon Recycling Int. og býr til íblöndunarefni í bensín. Á Reykjanesi eru þrjú fyrirtæki sem tengjast Reykjanesvirkjun og nýta hrakstrauma. Stolt Seafarm, flatfiskeldið, nýtir helmings þess sjávar sem dælt er inn í orkuverið og kemur út 40 gráðu heitur eftir að hafa kælt túrbínur orkuversins. Afgangs orkuvers-sjórinn býr til rándýran flatfisk, Senegalflúru.

Ásgeir forstjóri HS Orku segir umræðuna um fyrirtækið oft hafa verið á villigötum en mörg bæjarfélög á Suðurnesjum seldu hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja þegar ný lög um skiptingu fyrirtækisins í HS Veitur og HS Orku, tóku gildi. HS Orka á orkuverin í Svartsengi og á Reykjanesi en leigir landssvæðin af Grindavíkurbæ og ríkinu. Hann segir að ef nýir eigendur hefðu ekki komið að fyrirtækinu hefði verið erfitt að fara í fjárfrekar framkvæmdir í framtíðinni.

Hitaveita Suðurnesja, nú HS Orka og HS Veitur, skipa stóran sess hjá Suðurnesjamönnum og munu gera um ókomna tíð. Framherjum svæðisins fyrir fjörutíu árum ber að þakka framsýnina og kraftinn.