Snillingar frá Suðurnesjum

Ritstjórnarpistill Víkurfrétta

Það er alltaf ánægjulegt þegar Suðurnesjamenn eru að gera það gott um víða veröld. Fáir eru líklega að gera það eins gott og Sigtryggur Kjartansson sem útskrifaðist nýlega frá MIT háskólanum í Bandaríkjunum. Þar útskrifaðist hann með hæstu einkunn og komst fyrir vikið í sérstakt heiðursfélag með ýmsum heimsfrægum fyrirmennum. Í tölublaði vikunnar er Sigtryggur tekinn tali en hann undirbýr nú flutninga til Kaliforníu þar sem hann hefur verið ráðinn til vinnu hjá tæknirisanum Oracle.

Blaðamaður heyrði hljóðið í föður Sigtryggs sem skiljanlega var að rifna úr stolti. Sigtryggur sjálfur er hógvær og er ekki mikið að hampa sjálfum sér. Allt frá því hann var strákur hefur Sigtryggur verið virkur meðlimur í samfélaginu í Reykjanesbæ og í Garðinum þar sem hann bjó fyrstu ár ævi sinnar. Hann stundaði nám við tónlistarskólann í Reykjanesbæ með góðum árangri og spilaði fótbolta með Keflavík. Kjartan faðir hans sagði að Sigtryggur hafi alltaf verið með skýr markmið og ætlað sér langt. Hann hafi þó alltaf verið afar hjálpsamur og oftar en ekki rétti hann samnemendum sínum hjálparhönd þegar kom að náminu. Það gerir Sigtryggur enn þann dag í dag. Í stað þess að hjálpa nemendum í Gerðaskóla, Heiðarskóla eða FS, er hann að kenna og leiðbeina við einn af bestu háskólum heims.

Stór tæknifyrirtæki vildu ólm fá Sigtrygg til vinnu en hann valdi það fyrirtæki þar sem kröfurnar voru miklar og hann fengi að takast á við spennandi verkefni. Það er hálf súrrealískt að hugsa til þess að fyrrum dúx úr litla FS sé nú að brillera í svo virtum skóla og þurfi að velja úr störfum hjá ýmsum virtustu fyrirtækjum heims. Það sýnir okkur bara að allt er hægt ef viljinn og metnaðurinn eru fyrir hendi. Sigtryggur er vissulega gáfum gæddur en hann hefur ávallt stefnt hátt og lagt mjög hart að sér. Það er líka gaman að segja frá að Sigtryggur hlaut silfurmerki FS árið 2009 við útskrift. Merkið bar Sigtryggur með stolti á útskriftardaginn við MIT.

Daníel Guðbjartsson er annar FS-ingur sem hefur gert það gott en hann er á nýjum lista Thompson Reuters fjölmiðla- og upplýsingasamsteypunnar yfir áhrifamestu vísindamenn samtímans. Njarðvíkingurinn Daníel starfar sem vísindamaður hjá Íslenskri erfðagreiningu og er rannsóknaprófessor við Læknadeild Háskóla Íslands. Hann útskrifaðist frá hinum virta Duke háskóla í Bandaríkjunum á sínum tíma. Það er svo ekki langt síðan við birtum viðtal við Guðrúnu Ólöfu Olsen sem náð hefur hæstu meðaleinkunn í lögfræði við Háskóla Reykjavíkur. Við erum hreinlega að rækta snillinga hérna á Suðurnesjum.

Skólamálin hafa verið í umræðunni á Suðurnesjum um árabil. Neikvæðar fréttir voru áberandi í þeim málum um lengri tíma en núna horfir öðruvísi við. Suðurnesjamenn geta stoltir talað um skóla sína og frábært fólk sem nær árangri á hinum ýmsu sviðum.

Eyþór Sæmundsson

Blaðamaður Víkurfrétta