Smá mont er í góðu lagi!

Ef þið nennið ekki að lesa montpistil þá megið þið hætta núna.

Við eigum það nefnilega til að monta okkur af því sem Suðurnesjamenn eru að gera hér og þar. Flotta hluti. Og við viljum endilega koma þessu á framfæri í okkar miðlum, sjónvarpsþættinum, á vefnum og í blaðinu auðvitað.

Það er auðvelt að búa til montþátt í þessari viku. Hér kemur smá upptalning:

Við erum með bestu bardagakonu landsins. Hún Ástrós Brynjarsdóttir er áskrifandi að Íslandsmeistaratitlum í Taekwondo og Keflavíkurliðið er langbest á landinu. Það er fullt af ungu fólki sem æfir íþróttina undir stjórn Sandgerðingsins Helga Rafns Guðmundssonar.

Ein besta unga söngkona landsins kemur líka frá bítlabænum. Hún Jóhanna Ruth Luna Jose  bar sigur úr býtum í söngkeppni Samfés sem fór fram í Laugardalshöll um sl. helgi. Jóhanna Ruth keppti fyrir hönd félagsmiðstöðvarinnar Fjörheima í Reykjanesbæ söng lagið Girl on Fire með Alicia Keys. Það var unun að hlusta og horfa á hana. Við ætlum að biðja hana um að syngja fyrir okkur fljótlega og sýna það í þættinum okkar.

Tómas Knútsson sem stýrir Bláa hernum hefur unnið ótrúlega magnað starf í hreinsun sjávarsíðunnar og strandlengjunnar á Suðurnesjum. Ruslið hans var efniviður í verk á sýningu á hönnunarMars sem opnuð var í húsnæði sjávarklasans í Reykjavík. Það fannst okkur mega flott. Tommi á að vera búinn að fá fálkaorðuna fyrir þetta starf sitt. Við tókum nýlega hús á Tomma og verður með mjög skemmtilegt innslag um hann í sjónvarpsþætti VF.

Það er margt annað jákvætt og skemmtilegt í gangi á Suðurnesjum. Starfsfólkið í Vínbúðinni í Reykjanesbæ náði í titilinn „Besta Vínbúðin“ þriðja árið í röð. Það er mögnuð menningarvika í Grindavík og einkasýning Páls Óskars í Rokksafni Íslands í Hljómahöll er líka frábær, sem og Gestastofa Reykjaness Jarðvangs sem var opnuð í Duus-húsum.

Þá var Keflavíkurflugvöllur valinn sjöundi besti í heimi og nýlega sá besti í Evrópu.

Segjum þetta gott í bili. Af nógu er samt að taka.

Við á Víkurfréttum höfum verið með það sem aðal markmið í vikulegum sjónvarpsþáttum okkar á ÍNN og vf.is að segja frá mörgu jákvæðu og skemmtilegu sem er í gangi og að gerast á Suðurnesjum. Sýna hvað þetta er gott samfélag. Við fengum skemmtilegt hrós frá konu úr Reykjanesbæ sem er að vinna á stórum vinnustað í Reykjavík. Samstarfsfólk hennar horfir á Sjónvarp Víkurfrétta og hefur komið reglulega að undanförnu til að segja henni hvað það sé margt gott og skemmtilegt á Suðurnesjum.

Ekkert væl. Bara gaman. Smá mont er í góðu lagi!