Sláandi niðurstöður

Það eru sláandi niðurstöður úr könnun velferðarráðuneytisins sem segir að átta af hverjum tíu fjölskyldum á Suðurnesjum sem misstu húsnæði sitt á nauðungarsölu á árunum 2008-2011 búi nú í leiguhúsnæði. Þetta fólk virðist ekki hafa nýtt sér opinber úrræði sem í boði voru vegna skorts á upplýsingum um þau, úrræði sem hefðu komið þeim að gagni. Eitthundrað og fimmtíu fjölskyldur af 355 svöruðu spurningum í þessari könnun og 63% þeirra sem höfðu misst húsnæði sitt á nauðungarsölu hafði ekki nýtt sér nein úrræði vegna fjárhags- og húsnæðisvanda. Það er með öllu óskiljanlegt hvernig þetta má vera.

Hera Ósk Einarsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjanesbæjar, segir erfitt að segja til um hvers vegna svona margir hafi ekki vitað um þau úrræði sem stóðu til boða. Langflestir sem lentu í þessum hremmingum hafa komið sér fyrir í leiguhúsnæði og líklega margir á Ásbrú en einnig leigt af fjármálafyrirtækjunum sem höfðu „eignast“ húsin eða íbúðirnar þeirra.

„Það erfitt að segja til um af hverju svona margir hafa ekki vitað um þau úrræði sem þeim stóðu til boða, ekki skilið þau eða fengið misvísandi upplýsingar um hvað þeim stóð til boða. Ein af skýringunum getur verið það mikla álag sem er á þeim einstaklingum og fjölskyldum sem fóru í gegnum fjárhagsþrengingar og húsnæðismissi eftir hrun, greiðsluaðlögun og gjaldþrot. Einnig hafa mörg álitamál verið uppi um meðferð fjármálafyrirtækja á skuldum og ábyrgðum vegna lánveitinga sem þau veittu fyrir hrun og erfitt fyrir almenning að fylgjast með og jafnvel skilja hver staða þeirra er gagnvart fjármálafyrirtækjum,“ segir Hera Ósk.

Það er vissulega rannsóknarefni hvernig þetta gat farið svona en um leið skýring á því hvers vegna svona margar íbúðir og hús standa auð á svæðinu.

Talandi um húsnæðismál á Suðurnesjum er vert að benda á viðtal Sjónvarps Víkurfrétta við Kjartan Eiríksson, framkvæmdastjóra Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar. Þar svarar hann þeirri spurningu hvaða áhrif þúsund íbúðir á Ásbrú hafi haft á markaðinn á Suðurnesjum. Kjartan segir að vissulega hafi margir haft af þessu áhyggjur. Af 900 fjölskylduíbúðum á Ásbrú eru um 700 í leigu en þá hefur einnig verið mikil aðsókn í atvinnuhúsnæði. Þegar litið væri til baka hafi heildaráhrifin verið mjög jákvæð fyrir Suðurnesin.