Skúli ekki að skafa utan af því!

Hann var ekki að skafa utan af hlutunum hann Skúli Mogensen, eigandi Wow flugfélagsins á fundi um stöðuna á Suðurnesjum í Hljómahöllinni í síðustu viku. Skúli fór mikinn og sagði að Suðurnesin væru sætasta stelpan á ballinu þegar kæmi að ferðaþjónustunni. Suðurnesin væru mest spennandi svæðið á Íslandi á næstu árum. Þá yrðu Íslendingar að fara að viðurkenna og þora að meðtaka þá svakalega hröðu þróun sem á sér stað í ferðaþjónustunni. Nú þegar væri tregða í því búin að koma niður á vexti Wow air.

Það er óhætt að segja að það hafi komið meðvindur með kappanum á fundinum fyrir heimamenn sem núna eru í allt annarri stöðu en fyrir tveimur árum síðan. Skúli benti til dæmis á það að Wow hefði ekki verið til fyrir fimm árum en yrði komið með 800 starfsmenn árið 2017 og að Bláa lónið væri heldur ekki mjög gamalt fyrirtæki og væri með um 400 starfsmenn. Þessi fyrirtæki hafi orðið til án nokkurrar aðkomu opinberra aðila sem hefðu hins vegar hjálpað mikið til í uppbyggingu stóriðju sem hann sagði á villigötum og algera tímaskekkju.

Talandi um stóriðju þá er óhætt að segja að það hafi verið mikil vonbrigði hvað þátttaka var lítil í íbúakosningu um málefni kísilvers Thorsils í Helguvík. Um 900 manns tóku þátt en 2800 skrifuðu á undirskriftalista um að fram færi kosning. Þetta er ráðgáta og er óhætt að segja að það sé frekar fátt um svör frá þeim sem létu hæst í þessu máli. Þá eru þetta líka vonbrigði þegar horft er til íbúalýðræðis að þátttaka í rafrænni kosningu hafi ekki verið meiri en raun ber vitni. Það þarf virkilega að skoða hvað hafi komið í veg fyrir þátttöku. Var þetta of flókið eða var áhugi fólks bara ekki meiri? Vonbrigði á alla kanta. Ofan í þetta koma svo tíðindi úr splunkunýrri skoðanakönnun í Reykjanesbæ um viðhorf fólks til iðnaðaruppbyggingar í Helguvík. Yfir 70% sögðust hlynnt uppbyggingunni.

Páll Ketilsson
ritstjóri