Skrýtnir tímar?

Það eru svolítið skrýtnir tímar á Suðurnesjum um þessar mundir. Atvinnulífið á fleygiferð og angan af góðæri í loftinu. Fyrirtæki á svæðinu í miklum vexti og sum þeirra, jafnvel lítið þekkt, komin með fleiri starfsmenn en áætlað var að álver myndi hafa. Svo ofan í þetta allt þurfa forráðamenn Reykjanesbæjar að standa í erfiðum viðræðum við kröfuhafa um skuldavanda bæjarfélagsins. Svolítið öfugsnúið miðað við stöðuna á svæðinu.

En miðað við nýjustu fréttir þá eru góðar líkur á því að samningaviðræður séu á réttri leið fyrir Reykjanesbæ en lífeyrissjóðirnir hafa sent bæjaryfirvöldum bréf þess efnis að þeir vilji skoða möguleika til að klára málið. Sem sagt, allt á réttri leið þrátt fyrir fréttir á aðra leið fyrr í vikunni. Það þarf ekki að orðlengja það frekar hversu alvarlegt það væri ef fjárhaldsstjórn yrði skipuð yfir bænum. Það væri algert rothögg og í algerri þversögn við það sem er í gangi.

En að jákvæðu hlutunum aftur. Í blaðinu er ítarleg umfjöllun um gang mála í framkvæmdum víða á svæðinu. Suðurnesjamenn eru framkvæmdaglaðir núna. Það er sama hvar er stigið niður, hjá iðnaðarmönnum, verslunum og fleirum, að ógleymdri flugstöðinni. Alls staðar er vaðandi sveifla. Það vantar starfsfólk mjög víða, sérstaklega hjá iðnaðarmönnum en einnig hjá mörgum þjónustufyrirtækjum. Aðilar í byggingaverktöku og verslun segja það áberandi hvað margir eru að flytja til Suðurnesja, íbúar frá öðrum stöðum að komast í stærri eignir og setja það ekki fyrir sér að keyra til vinnu eftir Reykjanesbrautinni. Þá eru einstaklingar einnig framkvæmdaglaðari. Þeir eru að betrumbæta og laga húseignir sínar. Vitað er um marga sem hafa keypt íbúðir til útleigu.

Í vikunni var svo fyrsta uppskipun á hráefni fyrir kísilver United Silicon. Það eru tímamót. VF hefur heyrt af áhuga skipafélaganna á að nýta höfnina enn betur, ekki síst í tengslum við mikla starfsemi á Keflavíkurflugvelli. Í blaðinu birtum við viðtal við eiganda Airport Associates og segjum frá starfsemi þess, fyrirtæki sem byrjaði sem lítill þjónustuaðili við flugfélögin fyrir átján árum síðan en er nú orðið eitt af stærstu fyrirtækjum á Suðurnesjum. Fjöldi starfsmanna þess fer yfir 500 í sumar og mun verða yfir 400 næsta vetur. Fyrirtækið hefur ekki verið mjög áberandi í samfélaginu en saga þess er merkileg og það eru stórar áætlanir í farvatninu, með stækkun húsnæðis og aukinni starfsemi. Þegar verið var að ræða um álver í Helguvík var horft til þess að starfsmannafjöldi þess hefði orðið á milli 400 og 500 manns. Það er með nokkrum ólíkindum að félag í þjónustu við flugfélög sé komið með meiri fjölda starfsmanna. Félagið þurfti að bregðast við með því að flytja inn starfsfólk frá útlöndum og keypti tvö fjölbýlishús á Ásbrú til að hýsa á annað hundrað nýja starfsmenn. Frá þessu er greint í viðtalinu en einnig var fjallað um fyrirtækið í þætti Sjónvarps VF frá því í síðustu viku.

Páll Ketilsson
ritstjóri