Skref í rétta átt

Það er ánægjulegt að heyra af jákvæðum fréttum af rekstri Reykjanesbæjar.  Peningamálin eru á réttri leið en ljóst að betur má ef duga skal. Gert er ráð fyrir verulegri framlegð á næsta ári en hún fer samt öll í skuldahýt. Fjármagnsgjöldin eru hærri en framlegð ársins. Þetta er erfitt mál sem forráðamenn bæjarins eru með á borðinu, þeir hafa gert nánast allt til að laga reksturinn án þess að það komi niður á nauðsynlegri þjónustu við bæjarbúa, en það dugar ekki. Því er það mikið atriði að samkomulag um lækkun skulda náist við kröfuhafa bæjarins því ekki er hægt að keyra áfram á ofurháum gjöldum en gert er ráð fyrir því að fara niður í þá útvarsprósentu sem var áður, 14,52% á árinu 2018. Vonandi tekst forráðamönnum bæjarins að ná samningum um lækkun skulda svo það verði hægt að reka sveitarfélagið á eðlilegan hátt og halda áfram nauðsynlegri uppbyggingu innviða.

Um leið og hér er talað um erfiða skuldastöðu, og það ekki í fyrsta sinn, berast góðar fréttir úr Helguvík en hluti skuldavanda Reykjanesbæjar kemur einmitt þaðan. Uppbyggingin þar hefur kostað hönd og fót. Eimskipafélagið mun nota Helguvíkurhöfn til að þjónusta kísilver United en það skapar félaginu einnig möguleika á annarri uppskipun á vörum og nýta þannig Helguvíkurhöfn sem inn- og útflutningshöfn fyrir Suðurnesin í stað Reykjavíkur. Mun það minnka álagið á Reykjanesbraut sem er jákvætt. Þá er verið að skoða og vinna í komum erlendra skemmtiferða- og farþegaskipa til Helguvíkur. Hafnarstjóri Helguvíkurhafnar segir möguleikana marga, enda flóra skemmtiferðaskipa fjölbreytt. Þau geti verið að flytja allt frá 50 og upp í 6000 manns.

„Við höfum eitt hér sem ekki margir hafa en það er alþjóðaflugvöllur í 5 mínútna fjarlægð frá höfn. Það gerir það að verkum að það er hægt að samtvinna ævintýraferðir með farþegaskipum við hinar ýmsu höfuðborgir Evrópu, þar sem farþegar geta flogið hingað til að fara um borð í skipið og svo aftur heim. Skipið gæti því að hluta haft heimahöfn hérna á meðan þessum ferðum stendur,“ segir Halldór Karl við VF.

Verði af byggingu annars kísilvers í Helguvík má búast við enn meiri traffík stórskipa. Þetta mun allt auka tekjur skuldsettrar Helguvíkurhafnar. Ekki veitir af.

Frá Helguvík til Grindavíkur. Það er ánægjulegt að sjá hvernig Grindavíkurbær hefur haft jólagjafamál bæjarins en það er í formi gjafabréfs sem virkar sem greiðsla upp í kaup á vöru eða þjónustu í bæjarfélaginu. Í því felst góð hvatning til að versla heima. Í bæjarfélaginu klóra hins vegar margir sér í hausnum yfir brotthvarfi bæjarstjórans.