Skjótt skipast veður í lofti

Það var svolítið sérstök tilfinning að sitja kynningarfund Isavia um svokallað Masterplan Keflavíkurflugvallar til næstu 25 ára, Þróunar- og framkvæmdaáætlun. Leiðarljós Isavia til framtíðar á Keflavíkurflugvelli eins og forstjóri Isavia sagði. Tilfinningin var sérstök út af því að þetta masterplan mun eiga risastóran þátt í því að tryggja fjölbreytta atvinnumöguleika á Suðurnesjum næsta aldarfjórðunginn. Það er ekki langt síðan að hér var spurt um hvað hægt væri að gera í atvinnutækifærum hér á Suðurnesjum. Þeim þyrfti að fjölga. Vissulega er flugstöðin ekki bara að koma svona sterk inn á síðustu mánuðum eða ári, hún hefur algerlega haldið Suðurnesjum á floti frá hruni og svo hefur hún bætt í á síðustu tveimur árum.

Við höfum líka spurt hvernig við Suðurnesjamenn ætlum að manna öll störf sem eru í boði á flugstöðvarsvæðinu. Þúsund manns munu starfa beint við stækkunarframkvæmdir fyrsta áfanga á árunum 2016-2020. Nú þegar er erfitt að manna öll störf í og við stöðina. Svör við þessum spurningum liggja ekki á lausu. Það er þó nokkuð öruggt að Íslendingar munu ekki geta mannað öll störfin á næstu árum og áratugum. Forstjóri Isavia deilir þessum áhyggjum sínum á sama tíma og hann er að segja stoltur frá framtíðarmúsíkinni í ferðaþjónustunni og ótrúlega örum vexti á Keflavíkurflugvelli. Sumir segja lúxusvandamál. Það má taka undir það því afleiðingar bankahrunsins voru þyngstar á Suðurnesjum og vissulega eru timburmenn hér og þar, sé bara vitnað til fjölda íbúa og húseigna í eigu Íbúðalánasjóðs og annarra.

Framundan eru betri tímar. Fleiri störf í boði, ekki bara í flugstöðinni heldur í Helguvík og víðar. Hvernig við ætlum við að manna þetta allt er næsta stóra verkefni. Atvinnulífið finnur verulega fyrir þessu ástandi. Það er komin mikil samkeppni um starfsfólk. Við heyrum af fólki sem færir sig á milli aðila, fær betri laun eða þægilegri vinnutíma eða jafnvel bæði. Við heyrum líka af veitingastöðum og verslunum sem eiga erfitt með að manna fyrirtækin. VF ætlar að taka púls á því á næstu dögum og við ætlum að spyrja þessa aðila hvernig þau leysi málin og hvað þau telji að sé til ráða. Nú er öldin önnur!

Páll Ketilsson.