Skipta samgöngur máli?

Samgöngur skipta miklu máli í okkar samfélagi og ekki er langt síðan Reykjanesbær byrjaði með ókeypis strætóferðir innanbæjar, sem var mjög gott framtak. Þær nýtast öllum bæjarbúum. Þeir sem þurfa að nota strætó frá Suðurnesjum til höfuðborgarsvæðisins standa hins vegar mun verr að vígi og óhætt er að segja að það létti pyngjuna verulega. 
 
Háskólanemar greiða 82.000 krónur fyrir kort sem gildir eina önn og þykir sumum það nokkuð mikið, sérstaklega þegar miðað er við það hve mikið nemar fá í námslán. Eins og kemur fram í svari Berglindar Kristinsdóttur, framkvæmdastjóra Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, er reynt að reka samgöngukerfið með sjálfbærum hætti, það er notendur greiða fullt verð og kerfið er ekki niðurgreitt af sveitarfélögunum á svæðinu og skýrir það verðið.
 
Undirrituð tekur strætó nokkra daga í viku á milli Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar. Hver ferð kostar 1.600 krónur svo ferðir einn dag í og úr vinnu kosta því 3.200 krónur. Hægt er að kaupa 9 miða kort sem kostar 3.500. Með því að greiða með miðum kostar ferðin 1.556 krónur og sparast því ekki nema 44 krónur. Margt jákvætt er þó hægt að segja um strætóferðirnar á milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins eins og þær eru í dag. Ferðir eru mjög tíðar, nær allan daginn á klukkustundar fresti og oftar á morgnana. Það tekur ekki langan tíma að fara á milli með strætó og hann er alltaf á réttum tíma. Því er mjög óheppilegt að fólk telji sig spara með því að fara á bíl. Það er nefnilega mun ódýrara að fara á bíl, svona fyrir þá sem á annað borð eiga bíl. Ágóðinn af því að sem flestir noti almenningssamgöngur er ótvíræður; mengun er minni  og þörf fyrir viðhald gatna og risa framkvæmdir við mislæg gatnamót og annað minnkar þegar fjöldi bíla helst í skefjum.
 
Fram til ársins 2012 höfðu sveitarfélögin á Suðurnesjum einkaleyfi á ferðum á milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur. Þáverandi innanríkisráðherra afnam það og standa nú yfir málaferli. Eins og kemur fram í máli Berglindar hjá SSS var það gríðarlegt högg fyrir Suðurnesin því mestar tekjur fengust af þeirri leið. Fáist skaðabætur verða þær látnar renna inn í samgöngukerfið á Suðurnesjum og þá gæti skapast svigrúm til að lækka fargjöldin. Það er vonandi að svo verði sem fyrst, svo hægt verði að lækka verðið bæði fyrir háskólanema og almenning, því að ef gjaldsvæðum yrði fækkað úr fjórum í þrjú, og verðið lækkað úr 1.600 krónum í 1.200 krónur, myndi það skipta miklu máli og verðið færi úr því að vera hátt í að vera viðráðanlegt og jafnvel samkeppnishæft við einkabílinn.