Sími undir stýri og gjaldtakan

Það voru nokkuð blendnar tilfinningar hjá mörgum eftir opinn fund um tvöföldun Reykjanesbrautar í Stapa í síðustu viku. Jón Gunnarsson samgönguráðherra veifaði engu peningaveski og sagði stöðuna þrönga því mesta fjármagnið færi í velferðar- og heilbrigðismál. Lausnin væri gjaldtaka.

Viðbrögð við gjaldtöku hafa verið hörð og lang flestir á móti hugmyndinni. Ráðherra sagðist hafa fengið nokkuð sterk viðbrögð frá fólki frá Norðurlandi og Austurlandi, það væri fylgjandi því að fara í gjaldtöku ef það myndi flýta fyrir vegabótum eða nýjum göngum. Forráðamenn áhugahópana Stopp - hingað og ekki lengra og Grindavíkurvegar-hópsins sögðu í viðtölum við Víkurfréttir að með réttri útfærslu á gjaldtöku ætti að vera hægt að sannfæra landsmenn um að hún væri málið. Það var hins vegar svolítið sérstakt að daginn eftir fundinn greindi sami ráðherra frá aukafjármagni upp á tólfhundruð milljónir króna og engu af því var veitt til vegamála á suðvestur horninu. Það er eiginlega ekki hægt að lesa annað út úr því en að ráðherra ætli ekki að gefa sig í gjaldtökunni. Framkvæmdir við Reykjanesbraut, Grindavíkurveg eða aðra vegi sunnanlands verði ekki að veruleika í okkar lífi nema með gjaldtöku.

Líklega er ekki annað í stöðunni en að sætta sig við það en þó ekki öðruvísi en að hún verði þannig að Íslendingar sem nota vegina okkar mest greiði hóflegt gjald en þeir sem nota vegina minna, eins og t.d. ferðamenn, greiði hærra gjald. Það var að heyra á ráðherra að unnið væri að slíkum hugmyndum. Þær eiga að líta dagsins ljós á næstu vikum. Það er nauðsynlegt að það gerist fyrr en síðar. Það er alveg hægt að taka undir rök ráðherrans um að með því að flýta framkvæmdum þannig sé mikill ávinningur, ferðatími sparast, bílarnir eyða minna eldsneyti og rúsínan í pylsuendanum sé fækkun slysa.
Karl Óskarsson, ökukennari og skipstjóri á Suðurnesjum, kom með áhugaverða umræðu á fundinum. Hann sagði að meirihluta bílslysa mætti rekja til mannlegra mistaka frekar en ástands vega eða farartækja. Hann benti á að auka þyrfti fræðslu en það hefði gefið mjög góða raun í sjávarútvegi. Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, vakti athygli á þessu á fésbókarsíðu sinni og sagði: „Ætli margvísleg notkun farsíma undir stýri eigi ekki stóran þátt í þeim mannlegu mistökum? Hvernig væri að við tækjum höndum saman um bætta umferðarmenningu með öllum mögulegum ráðum. Virða umferðarlög, hámarkshraða, vera tillitssöm í umferðinni og svo framvegis. Að minnsta kosti ætla ég að lýsa því yfir hér að ég er hættur að nota símann undir stýri, nema að tala í hann með handfrjálsum búnaði, og skora á alla FB vini mína að gera slíkt hið sama. Steinhætta því!“

Örugglega geta mjög margir tekið undir orð bæjarstjórans.