Sátt eða stríð?

Tvö stórmál bera upp í sömu vikunni á Suðurnesjum en í gær var íbúafundur um fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar í Stapa. Hitt er efni forsíðufréttar blaðsins um lánasamning einstaklings við Sparisjóðinn í Keflavík sem hann vann í héraðsdómi.

Í málefnum Reykjanesbæjar leggja allir í bæjarstjórn og fleiri til að samstaða verði um að sameinast um tillögur til úrbóta. Lögð verði áhersla á að vinna saman að málinu og horfa til framtíðar í stað þess að velta sér upp úr ástæðum ástandsins. Nýráðinn bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Kjartan Már Kjartansson, líkti þessu við skip sem væri strandað og aðal áherslan væri sú að losa skipið undan strandinu en ekki að leggja mesta áherslu á það hver væri ástæðan fyrir því að skipið væri í þessari stöðu. Það mætti bíða betri tíma. Nú yrði lögð áhersla á aðgerðaráætlunina sem ber heitið „Sóknin“ og fortíðin sett á ís. Það er vitað að ekki eru allir fylgismenn núverandi meirihluta sammála svona friðarpípu. Friðarsinnarnir hafa hins vegar bent á eldra sambærilegt dæmi sem kom upp fyrir aldarfjórðungi hjá Keflavíkurbæ þegar allt fór í háaloft út af viðskilnaði í bæjarstjórn. Það sem skipti langmestu máli væri það að forráðamenn bæjarfélagsins og bæjarbúar allir sameinuðust um þessa „sátt“. Vonandi gengur það eftir. Íbúar Reykjanesbæjar og bæjarfélagið í heild má ekki við því að það verði fjárhagsstríð sem geti leitt til klofnings og mikillar ósamstöðu og leiðinda. Svæðið má hreinlega ekki við því.

Það er ekkert launungarmál að undirritaður var í hópi þeirra sem lagði áherslu á sáttatón í málefnum Sparisjóðsins í Keflavík, þó það væri alls ekki auðvelt, langt frá því. Þar sitja margir eftir mjög sárir. Nýjar fréttir sem tengjast málefnum Sparisjóðsins og nú Landsbankans eru ánægjulegar þar sem gríðarlegir hagsmunir og fjármunir eru í húfi fyrir samfélagið á Suðurnesjum. Hundruð lána verða líklega leiðrétt og lækkuð en líklega er fyrsti dómur þess efnis fallinn en lánasamningur milli einstaklings og Spkef/Landsbankans var dæmur ólögmætur. Viðkomandi færi leiðréttingu upp á 12 milljónir króna. Varnaglinn á þessu máli snýr að því hvort Landsbankinn muni áfrýja til Hæstaréttar sem hann líklega mun gera en vonandi fær málið sömu niðurstöðu þar og í héraðsdómi. Þá munu nokkur hundruð viðskiptavina bankans fá sanngjarna leiðréttingu á gengistryggðu lánum sínum.